Eyþór Árni í viðtali við VF: Var 249 kg og óttaðist dauðann
Eitt stærsta sjónvarpsverkefni síðustu ára hér á landi, The Biggest Loser Ísland, var tekið upp á Ásbrú og víðar á Suðurnesjum nú í haust og vetur. Sýning þáttanna hefst á SkjáEinum þann 23. janúar nk. en þættirnir verða sýndir á fimmtudagskvöldum í vetur. Á meðal keppenda í þáttunum er Eyþór Árni Úlfarsson, 34 ára, frá Reykjanesbæ.
Eyþór Árni hefur glímt við allmörg aukakíló í mörg ár. Þegar hann hóf þátttöku í The Biggest Loser Ísland sýndi vigtin 249 kíló. „Ég var búinn að vera alltof feitur í mörg, mörg ár og stærð vandamálsins var öllum öðrum ljós en sjálfum mér,“ segir Eyþór í samtali við Víkurfréttir. „Þrátt fyrir mikla afneitun í mörg ár á eigin ástandi þá var ég farinn að vera hræddur um sjálfan mig og hvort ég myndi ná þeim áfanga að verða fertugur, en ég er að verða 35 ára í mars. Eins og ég lifði lífinu, þá er ég ekkert viss um að ég hefði náð svo langt með sama áframhaldi“.
- Hvernig hafði þetta líf verið?
„Það var voðalega mikið að hanga í sófanum og éta snakk. Ég át það sem mér sýndist og gerði nákvæmlega ekki neitt til að hreyfa mig eða brenna. Ég er öryrki í dag og hef ekki getað unnið neina vinnu í mörg ár út af eigin líkamsástandi“.
- Hvenær á lífsleiðinni gerðist þetta, að þú fitnaðir svona?
„Ég minnist þess ekki að hafa verið eðlilegur. Ég var mjög ungur þegar ég byrjaði að borða mér til huggunar. Mér var strítt mikið sem krakka og ég var lítill í mér. Ég kunni ekki að standa upp fyrir sjálfum mér eða mínum rétti. Ég komst hratt upp á það sem barn að borða mér til huggunar og láta mér líða vel með að borða. Ég kem líka af heimili þar sem er eldaður góður matur og mér fannst gaman að borða. Ofan á þetta bættist að ég var mjög gefinn fyrir sætindi. Ég var ekki nema 15 ára gamall þegar ég var orðinn 100 kíló. Ég hef oft verið spurður; Hvað ertu þungur? Ertu 160 kíló? Ég hélt hins vegar að fólk væri að grínast í mér, því ég var 160 kíló fyrir tvítugt.
Vandinn hélt áfram að aukast og þetta hlóð utan á sig. Ég hafði gaman af því að djamma mikið og það er mjög fitandi. Ég datt svo bara í afneitunarpakka og hætti að hugsa um sjálfan mig,“ segir Eyþór.
Vigt fyrir þyngri en 200 kg vandfundin
- Hvenær náðir þú botninum?
„Í mörg ár hætti ég að fylgjast með vigt sem er kannski skiljanlegt því það er mjög erfitt að finna vigt fyrir yfir 200 kg mann. Það er til vigt sem fer upp í 200 kg en vigt sem á að taka meiri þyngd er vandfundin“.
- Hafðir þú gert eitthvað áður til að taka á þínum málum?
„Í seinni tíð gerði ég tilraunir til að komast inn á Reykjalund og svoleiðis staði en það var aðallega vegna þess að annað fólk vildi að ég leitaði þangað. Ég hafði ekki mikinn áhuga á því sjálfur. Mig hefur alltaf skort áhuga á að gera eitthvað fyrir eigin heilsu og stíga skref í þá átt. Ég er með þá áráttu að ýta hlutunum á undan mér, frestunaráráttu eins og margir aðrir. Ég var alltaf á leiðinni að gera þetta bara seinna.
Svo gerðist það að auglýst var eftir þátttakendum í The Biggest Loser Ísland. Valdimar frændi minn benti mér á auglýsingu eftir þátttakendum en í fyrstu fannst mér þetta bara vera kjánalegt. Ég hugsaði; þetta er eitthvað asnalegt. Kannski var ástæðan sú, að með því að taka þátt í svona verkefni, þá þýddi það rosalega mikla breytingu sem ég var ekki alveg tilbúinn í.
Valdimar byrjaði á að senda inn umsókn fyrir mig og hótaði jafnframt að hætta að tala við mig ef ég tæki ekki þátt í þessu og myndi ekki sækja sjálfur um í þáttunum. Mamma sendi einnig inn umsókn og allir í kringum mig urðu uppveðraðir og hvöttu mig til þátttöku.
Ég hugsaði málið í tvo eða þrjá daga og áttaði mig þá á að þetta fólk í kringum mig er að gera þetta út af ást og það hefur áhyggjur af mér, að ég hrökkvi bara upp af einn daginn. Ég hugsaði með mér; ok, látum slag standa og sjáum hvað gerist“.
Valinn úr hópi 1300 umsækjenda
Eyþór segist fljótlega hafa fengið svör frá stjórnendum þáttarins þar sem hann var beðinn um ítarlegri upplýsingar um sig og sín vandamál. „Ég var síðan tekin í nokkur viðtöl og þá fór ég að verða spenntari fyrir þessu og allri þessari hugmynd,“ segir hann.
„Ég hef oft lagt af stað í einhverja hreyfingu, en það endist ekki venjulega lengi. Það er af því að það tekur ákveðinn tíma að venja sig á nýja lífshætti. Ég hugsaði með mér að ég væri að fara í tökur í tíu vikur og í strangt aðhald í 4-5 mánuði, því það er keppni ennþá í gangi. Ef það er tími til að breyta um lífsstíl, þá er það þarna“.
„Þegar ég fékk að vita það að ég hefði verið samþykktur inn í þáttinn og það hefðu verið 1300 manns sem sóttu um að komast í þáttinn, þá fór ég að skilja alvarleikann og hvað þetta er mikil ábyrgð. Ég áttaði mig líka á því að ég var búinn að mála sjálfan mig út í horn og gat heldur ekkert stigið út ef þetta fór að vera eitthvað erfitt“.
Hefur snúið við eigin lífsstíl
Eyþór segir það ákveðinn létti að vita það að hann gæti ekki bakkað út úr þessu sjónvarpsverkefni. „Ég er að fara að koma fram í sjónvarpi og verð landsþekktur. Ég er búinn að setja pressu á sjálfan mig og nú þýðir ekkert að labba bara inn í næstu ísbúð. Ég kann ekkert við að enda á forsíðu Séð og heyrt, gripinn glóðvolgur,“ segir Eyþór og brosir.
Það sem gerist í þáttunum má Eyþór ekki ræða í þessu viðtali. Þátttaka í The Biggset Loser Ísland hefur hins vegar snúið við lífsstíl Eyþórs og hann er farinn að takast á við hluti sem voru honum óhugsandi fyrir nokkrum mánuðum.
„Ég er með haus sem vill ekki alltaf gera það sama og ég vil. Á mánudaginn setti ég nýtt persónulegt met þegar ég synti kílómetra í sundmiðstöðinni í Keflavík. Mér finnst ég einnig vera kominn á bragðið með líkamsrækina og er farinn að þrá þetta adrenalín-boost sem fylgir því að vera að æfa alveg eins og vitleysingur. Þetta er örugglega besta fíkn sem til er“.
Ætlar að verða 110 kg
„Ég er meðvitaður um að ég hef náð góðum árangri í að bæta eigin heilsu og það finn ég á eigin líkama alla daga. Ég hef líka sett mér markmið sem ég er að vinna að. Ég er með mörg lítil markmið en ekki eitt stórt.
Mitt stærsta markmið er að komast niður í 110 kg. Ég held að það fari mér vel, því ég er eðlislega mjög þungur. Til þess að komast þangað þarf ég að losa mig við 140 kg af líkamsþyngd og ég hef fulla trú á sjálfum mér í það verkefni“.
- Hvenær ætlar þú að ná þessum áfanga?
„Ég held að það verði ekki á árinu. Og þó, það gæti alveg gerst. Ég er með einkaþjáfara sem leggur upp fyrir mig æfingar. Ég stunda æfingar núna þrisvar á dag. Ég byrja daginn á göngu í Reykjaneshöllinni. Um miðjan dag fer ég í sund og síðdegis æfi ég með ketilbjöllur. Þetta er mjög gaman því það er svo gott að sjá árangur“.
- Hvað langar þig að gera þegar þú hefur snúið lífinu við?
„Ég hef áhuga á félagsfræði og langar að klára að mennta mig í þeim fræðum og jafnvel gerast svo kennari í framhaldinu. Ég ætla hins vegar að gefa mér þetta ár til að bæta líkamsástandið og þá get ég farið út á vinnumarkaðinn að nýju.
Ég hef ávallt haft þá hugsun að gefast ekki upp og stoppa ekki. Það skiptir miklu máli að halda áfram“
Forsýning á fyrsta þætti
Boðið verður upp á sérstaka forsýningu á fyrsta þætti The Biggest Loser Ísland fyrir íbúa í Reykjanesbæ, Ásbrú og nágrenni í Andrews Theater, mánudaginn 13. janúar kl. 20:30. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Viðtal: Hilmar Bragi Bárðarson / [email protected]