Eyjamenn söfnuðu 12,5 milljónum á tónleikum fyrir Grindavík
Alls söfnuðust 12,5 milljónir króna fyrir Grindvíkinga á styrktartónleikum Eyjamanna, Heim á ný, sem haldnir voru í Höllinni í Vestmannaeyjum síðastliðið föstudagskvöld.
Nokkur hópur Eyjafólks stóð fyrir fjársöfnun til handa Grindvíkingum og höfðu mörg fyrirtæki í Eyjum lagt þeirri söfnun lið með fjárframlögum. Þá lagði Vestmannaeyjabær söfnunni til fimm milljónir. Söfnunin náði hámarki á styrktartónleikunum. Tónleikarnir voru skemmtilegir, með fjölbreyttu sniði, úrvals tónlistarfólki þar sem eyjalögin góðu voru í forgrunni.
Á tónleikunum stigu á svið tónlistarfólk úr Eyjum og víðar að og rann allur aðgangseyrir óskertur til Grindvíkinga. Alls söfnuðust 12,5 milljónir króna í söfnuninni og var fulltrúum Grindvíkinga afhent ávísun í lok tónleikana. Fjölda mynda frá tónleikunum má sjá á vefnum Eyjar.net
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, sagði söfnunina lýsa óendanlega miklum samhug og stuðningi við Grindvíkinga á þessum erfiðu tímum. „Þetta sama bæjarfélag gekk í gegnum mikla erfiðleika fyrir 50 árum, að sýna okkur þessa samkennd er ómetanlegt og við erum mjög þakklát fyrir þennan mikla stuðning,“ segir í frétt á grindavik.is.