Eyðimerkurblóm í Bláa lóninu
Sómalska baráttukonan Waris Dirie var stödd hér á landi í síðustu viku til að kynna sjálfsævisögu sína, Eyðimerkurblómið. Hún heimsótti Bláa lónið á þriðjudag. Dirie er heimsþekkt fyrirsæta en hún flúði yfir landamæri Sómalíu 13 ára gömull. Í ævisögu sinni lýsir hún lífinu í Sómalíu og ferðalaginu til London þar sem hún var uppgötvuð sem fyrirsæta. Dirie sagðist aldrei hafa upplifað annað eins og veru sína í Bláa lóninu. „Þetta er himneskt,“ sagði hún, brosandi út að eyrum eftir að nuddarinn hafði farið um hana mjúkum fingrum. Eyðimerkurblómið naut verunnar í Bláa lóninu svo að minnstu mátti muna að hún missti af flugi út skömmu seinna. Waris hefur ferðast víða um heim og er hingað komin frá Tékklandi þar sem hún hitti m.a. Vaclav Havel og mun fara í næstu viku til Brasilíu. Hún var ákaflega hrifin af landi og þjóð, sérstaklega minntist hún á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands sem henni fannst ákaflega þægilegur og ljúfur. Forsetinn tók henni afskaplega vel og benti á ýmsar gagnlegar leiðir í baráttu hennar, leiðir sem hún mun örugglega nýta sér. Það er JPV útgáfa sem gefur út sjálfsævisögu Waris, Eyðimerkurblómið en Halla Sverrisdóttir þýddi hana á íslensku.