Erum í þessu öll saman
– Reykjanesapótek nú líka á Fitjum í Reykjanesbæ
„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og framar björtustu vonum. Ég er ánægð með þetta og stolt af okkar fólki,“ segir Sigríður Pálína Arnardóttir, apótekari í Reykjanesapóteki, sem var að opna sitt annað apótek á Fitjum í Reykjanesbæ. Á Fitjum er Magdalena Margrét Jóhannsdóttir lyfjafræðingur apótekarinn en Sigríður Pálína er apótekarinn á Hólagötunni.
Í Reykjanesapóteki á Fitjum verða sömu gildi og á Hólagötunni. Þar verða lífrænar vörur í boði. „Við höfum alla tíð reynt að vera umhverfisvæn, flokkað og endurunnið og með grænt bókhald. Þá reynum við að bjóða vörur með góð innihaldsefni og eru náttúruvæn. Við verðum með lyfjafræðilega ráðgjöf og lyfjastoð á Fitjum en fyrst og fremst ætlum við að veita góða þjónustu,“ segir Sigríður Pálína apótekari í samtali við Víkurfréttir.
„Við erum að gera þetta saman. Ég hafði persónulega alveg nóg að gera þegar leitað var til mín með opnun apóteks á Fitjum eftir að apótekið sem þar var fyrir flutti. En ég ræddi þetta við fólkið mitt en við erum fjórir lyfjafræðingar og fjórir lyfjafræðinemar hjá Reykjanesapóteki. Þau voru spennt fyrir þessu verkefni og því var ákveðið að láta slag standa á þessum forsendum, að við erum í þessu öll saman,“ segir Sigríður Pálína.
Reykjanesapótek hefur getið sér gott orð á Suðurnesjum fyrir framúrskarandi þjónustu og það er alkunna að Sigríður Pálína hefur verið að opna apótekið á öllum tímum sólarhringsins til að aðstoða fólk sem nauðsynlega hefur þurft að fá lyf utan hefðbundins opnunartíma apóteksins. Sú þjónusta verður áfram og vaktsíminn er í Reykjanesapóteki á Hólagötu þar sem opnunartíminn er einnig lengri en í apótekinu á Fitjum.
Sigríður Pálína fagnar opnuninni á Fitjum og segir að hún létti ákveðnu álagi af apótekinu á Hólagötu. Þá geti lyfjafræðingar Reykjanesapóteks einnig haldið áfram að veita góða þjónustu og farið að sinna betur hugðarefnum.
„Það er verkefni á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Landlæknis um lyf án skaða og okkur langar að taka þátt í því. Verkefnið er um að fólk noti lyfin sín rétt, hvaða milliverkanir eru og að það sé ekki verið að ofnota lyf og að lyfjagjöf sé rétt,“ segir Sigríður Pálína Arnardóttir í Reykjanesapóteki að endingu.
Reykjanesapótek á Fitjum er bæði rúmgott og bjart.