Erum flottasta stelpan á ballinu
- segir Sigurður Sigurbjörnsson fasteignasali á M2
Víkurfréttir tóku púlsinn á fasteignamarkaði Suðurnesja á dögunum. Sigurður Sigurbjörnsson, fasteignasali hjá M2 í Hólmgarði í Keflavík, segir fasteignamarkaðinn á Suðurnesjum hafa tekið mikinn kipp á síðustu átta mánuðum. Sala fasteigna hafi vaxið hratt á þessum stutta tíma og verð farið hækkandi. Sigurður hefur starfað sem fasteignasali undanfarin ár og segir að árið 2011 hafi fasteignamarkaðurinn á Suðurnesjum náð botninum. Síðan þá hefur kúrfan verið á nokkuð jafnri uppleið en síðan tekið stökk síðustu átta mánuði eins og áður segir.
„Það er auðveldara að selja eignir í dag en hins vegar er lítill lager af eignum. Fólk er tilbúnara að stækka við sig í dag því það hefur myndast eigið fé í eignunum og fólki líður þannig að það geti stækkað við sig og þurfi ekki að taka bankalán til að brúa það eigið fé sem hefur myndast,“ segir Sigurður.
Sigurður segir talsvert um að ungt fólk sé að kaupa sínar fyrstu eignir núna og þar hafa bæði úrræði ríkisins og sparnaðarleiðir bankanna ráðið miklu eins og viðbótarlífeyrissparnaður.
Hann segir allar tegundir eigna seljast í dag. Til dæmis sé ákveðinn hópur sem leiti eftir eignum sem kalli á mikið viðhald og séu að taka þessar eignir í gegn og lagfæra til að geta svo endurselt á hærra verði. Núna eru líkindi með árunum 2006-7 í fasteignasölu. Nú, eins og þá, fór framboð eigna að minnka, verðið að hækka og allt selst. „Það eru hins vegar allt aðrir drifkraftar að verki nú en þá.“
- Er kominn tími á að það þurfi að byggja?
„Já, ég held að það sé ekki spurning en menn eru svolítið seinir að fara af stað í það. Menn hafa verið hræddir og tvístígandi síðustu tvö ár hvort þeir hefðu átt að fara af stað og hvort verðin séu nógu góð. Nú eru þau orðin góð enda fer enginn af stað nema eitthvað sé út úr þessu að hafa.“
- Hvernig eignum er fólk að sækjast eftir? Er verið að leita að minna húsnæði?
„Það er rosalega misjafnt en fólk vill eignast íbúð. Þegar verðið er rosalega hátt þá er möguleikinn að taka minna rými. Fólk sættir sig þá við minni einingu en að hún sé ný í stað þess að kaupa eitthvað sem er til dæmis 20 fermetrum stærra en gamalt og kallar á mikið viðhald.“
Aðspurður um leigumarkaðinn á Suðurnesjum segir Sigurður: „Við höfum fundið fyrir því undanfarið að fólk sem hefur verið á leigumarkaði er að leita eftir eignum til að kaupa því það finnur ekkert til leigu og vegna þess að biðlistar hjá leigufélögum eru mjög langir.“
- Hvernig eignir þarf að byggja?
„Það vantar 110 til 120 fermetra eignir með fjórum herbergjum. Það vantar svoleiðis eignir á markað. Þá vantar litlar eignir, jafnvel 40 til 50 fermetra eignir. Það hefur ekkert verið byggt af þessum eignum í lengri tíma síðan blokkirnar í Fífumóa og Heiðarholti voru byggðar. Það er aukinn markaður fyrir þessar íbúðastærðir. Það þurfa ekki allir sjónvarpshol og borðstofu. Við finnum að stærri fjölskyldur vilja fjögur herbergi í minna rými.“
- Hver verður þróunin næstu árin?
„Ég held að fasteignaverð haldi áfram að hækka næstu tvö til þrjú árin svo framarlega sem það breytist ekki mikið í samfélaginu. Við erum svolítið opin fyrir öðrum drifkröftum sem geta haft áhrif á þetta, sérstaklega ef margir fara af stað í byggingu húsnæðis og markaðurinn mettast af byggingamagni, sem ég hef ekki trú á að muni gerast, þá myndi þrýstingurinn minnka.“
Sigurður segist finna fyrir straumi fólks af höfuðborgarsvæðinu. Hann hafi lengi orðið var við það að fólk sé að þreifa fyrir sér á Suðurnesjum en það í auknum mæli núna. Hann segist finna að viðhorf þessa fólks sé jákvætt fyrir svæðinu, það tali um að það sé að koma í rólegra umhverfi og sé spennt fyrir þeirri breytingu sem það sé að setjast að á svæðinu.
- Hvað fasteignamarkaðinn á landinu varðar í dag, þá erum við á Suðurnesjum nokkuð heit?
„Já, við erum flottasta stelpan á ballinu.“