Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Eru engin fjölskylduvæn fyrirtæki í Reykjanesbæ?
Fimmtudagur 5. ágúst 2004 kl. 15:40

Eru engin fjölskylduvæn fyrirtæki í Reykjanesbæ?

Svo virðist sem fyrirtæki og stofnanir í Reykjanesbæ séu ekki ýkja fjölskylduvæn. Það má alla veganna ráða af undirtektum við samkeppni Reykjanesbæjar um „Fjöskylduvænustu fyrirtæki og stofnanir bæjarins“.

Í júní sl. auglýsti Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar eftir ábendingum starfsmanna og hugðist verðlauna annars vegar það fyrirtæki í bænum og hins vegar þá stofnun eða fyrirtæki á vegum bæjarins sem standa sig best í þeim efnum.

Síðan hefur einungis ein ábending borist og hefur því verið ákveðið að framlengja fresti til að skila ábendingum til 20. ágúst nk.

„Við viljum ekki trúa að ekki séu fleiri fyrirtæki með fjölskylduvæna stefnu,“ sagði Hjördís Árnadóttir, félagsmálstjóri Reykjanesbæjar, í samtali við Víkurfréttir í dag. „Við ætlum að hafa þessi verðlaun árlegan viðburð og ætlum með þeim að vekja stjórnendur til umhugsunar um hversu mikilvægt sé að taka tillit til fjölskyldumála.“

Hjördís hvetur fólk til að tilnefna sinn vinnustað og færa rök fyrir hvernig þeirra fyrirtæki tekur tillit til fjölskyldunnar í rekstri sínum.
 
Dómnefnd mun fara yfir tilnefningar og velja sigurvegara og verða viðurkenningar veittar í tengslum við Ljósanótt 2004.  

Tilnefningar berist fyrir 20. ágúst 2004 til Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar, Kjarna, Hafnargötu 57, 230 Reykjanesbæ, merktar FJÖLSKYLDUVÆNT FYRIRTÆKI, eða í tölvupóstfangið [email protected].
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024