Eru dagar kísilverksmiðju USi í Helguvík taldir?
Gjaldþrot blasir við United Silicon en Umhverfisstofnun hefur gefið út að félaginu sé óheimilt að endurræsa ljósbogaofn verksmiðjunnar nema skorsteini verði bætt á verksmiðjuna í þágu íbúa til að minnka lyktarmengun. Stofnunin fellst ekki á þá ósk forsvarsmanna Sameinaðs silíkons að fresta þeirri aðgerð fram yfir endurræsingu en USi telur að það geti tekið allt að tvö ár að ljúka slíkri framkvæmd. United Silicon fékk heimild til greiðslustöðvunar síðla sumars til 4. desember sem síðan var framlengd til 22. janúar.
Umhverfisstofnun hefur með svarbréfi dags. 19. janúar sl. fallist á úrbótaáætlun Sameinaðs Silíkoni hf. í Helguvík með skilyrðum.
United Silicon sendi Umhverfisstofnun úrbótaáætlun með bréfi 14. desember 2017 og 16. janúar 2018. Með svarbréfi Umhverfisstofnunar sem sent var fyrirtækinu 19. janúar sl. setur Umhverfisstofnun fram sem skilyrði fyrir samþykkt úrbótaáætlunar. Skorsteini verði bætt á verksmiðjuna og þá verði fyrirtækinu gert að vinna að fleiri úrbótum. Umbætur hafa þó átt sér stað og telur Umhverfisstofnun m.a. að nýtt og betra reykhreinsivirki fyrir afsog frá aftöppun og steypingu í ofnhúsi sé til bóta.
Rúma 3 milljarða króna kostar að koma kísilverksmiðju United Silicon í rekstur, koma mengunarvörnum í lag og klára verksmiðjuna sé tekið mið af niðurstöðu norskra sérfræðinga en þeir unnu hana fyrir eigendur verksmiðjunnar.
Miðað við bréf Umhverfisstofnunar í dag er ljóst að mikið ber í milli þess sem USI telur nægjanlegt að gera og Umhverfisstofnun fer fram á, til að rekstur geti hafist að nýju.