Ert þú með veiðistöng sem var veidd úr Keflavíkurhöfn?
Eins og Víkurfréttir greina frá í Víkurfréttum í dag veiddist makríll á dögunum í höfninni í Keflavík sem var fastur við bæði spún og veiðistöng. Nú hefur hugsanlegur eigandi veiðistangarinnar gefið sig fram og lýst eftir veiðistöng sem hefur tilfinningalegt gildi fyrir sig, en stöngin mun hafa verið í eigu afa sem nú er látinn. Stöngin var lánuð í veiðiskap þann 14. júlí og var í gulum eða appelsínugulum lit og einnig var smá svart í stönginni.
Samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta var stöngin sem veiddist með makrílnum gefin veiðimanni við höfnina, enda virkaði hún fínt til frekari makrílveiða. Ef einhver hefur nú stöngina undir höndum og hún passar við lýsinguna hér að ofan, er viðkomandi beðinn um að koma stönginni til Víkurfrétta sem munu hafa milligöngu um að koma þessum ættargrip í réttar hendur.