Erilsamt hjá slökkviliðinu
Slökkvilið Reykjanesbæjar hafði í nógu að snúast sl. viku en heildarútköll sjúkra- og slökkviliðs voru 25, þar af þrjú á slökkviliðið.Sprenging og eldur var í verkstæði í Njarðvík eins og sagt er frá annars staðar í blaðinu. Á þriðjudagskvöldið var slökkviliðið kallað að Ásabraut í Keflavík, en þar flæddi smurolía um stórt svæði. Slökkviliðið sér um að hreinsa upp öll slík spilliefni á landi í dag, samkvæmt nýjum lögum. Sl. sunnudag var sameiginleg æfing allra slökkviliða á Suðurnesjum, en þar voru auk Reykjanesbæjar, slökkvilið Keflavíkurflugvallar, Sandgerðis og Grindavíkur. Æfingin var í umsjón slökkviliðsins í Reykjanesbæ og fór hún fram við Fiskverkunarhús Valdimars í Vogum. Æfingar sem þessi hafa það markmið að slípa liðin saman og æfa samninnu liðanna á vettvangi, svo hægt sé að hámarka afköst þeirra þegar í alvöruna er komið. Einnig þarf að athuga hvernig tæki og tól liðanna nýtast saman. Þá var Reykköfun æfð ásamt því sem nýi körfubíllinn var reyndur. Samæfingar sem þessi verða framvegis haldnar reglulega, a.m.k. þrisvar sinnum á ári og munu slökkviliðin skiptast á með umsjón þeirra.