Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 9. janúar 2001 kl. 02:06

Erfitt líf, þrátt fyrir góðæri

Síðastliðið ár var annasamt hjá Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar, að sögn Hjördísar Árnadóttur félagsmálastjóra, þrátt fyrir góðæri og uppsveiflu í atvinnulífinu.

Fjölgun barnaverndarmála
Eins og undanfarin ár var barnaverndarþátturinn yfrigripsmestur en alls voru tekin fyrir barnaverndarmál 231 barns. Til samanburðar má geta þess að þau voru 194 árið áður. Flokkun þeirra var eftirfarandi: Almenn barnaverndarmál 110, unglingamál 61, kynferðisbrotamál 18, börn á fósturheimilum 27, börn í meðferðarvistun á langtímameðferðarheimilum 3, deilur foreldra um umgengni við barn 7, deilur foreldra um forsjá barns 2, ættleiðingar barna 2 og umsókn um að taka barn í fóstur 1.

Tæpar 17 millj. kr. í fjárhagsaðstoð
189 einstaklingar og fjölskyldur fengu fjárhagsaðstoð á árinu, samtals tæpar 17 millj. króna, en það er mjög svipað og árið áður. Greiðslur húsaleigubóta voru einnig áþekkar árinu áður en 178 heimili fengu húsaleigubætur, samtals tæpar 19 millj. kr. Ríkið endurgreiðir sveitarfélögunum hluta húsaleigubóta.

Fleiri fá heimaþjónustu
Fjölskyldu- og félagsþjónustan útvegar þeim sem þurfa heimaþjónustu. Að sögn Hjördísar voru það aðallega aldraðir sem nutu félagslegrar heimaþjónustu en nú hefur orðið breyting þar á. Á árinu 2000 fengu 264 heimili félagslega heimaþjónustu, þar af 172 heimili aldraðra.

Vöntun á húsnæði
Á síðasta ári bárust 49 nýjar umsóknir um félagslegt leiguhúsnæði. Því miður hefur eftirspurn eftir húsnæði verið meiri en framboð en 43 einstaklingar fengu úthlutað leiguíbúðum á árinu. Skiptingin var eftirfarandi: Almennar leiguíbúðir 31, leiguíbúðir fatlaðra 7, leiguíbúðir aldraðra 2 og
hlutdeildaríbúðir aldraðra 3.
Að sögn Hjördísar Árnadóttur er vöntun á húsnæði enn mikil en nú eru 138 einstaklingar á biðlista eftir félagslegu húsnæði, þar af 78 aldraðir. Til að leysa húsnæðisvanda tekjuminni einstaklinga var viðbótarlánakerfinu komið á en þá getur fólk fengið allt að 90% lán til húsnæðiskaupa. Á síðasta ári voru 67 viðbótarlán samþykkt, samtals að upphæð kr. 83.3 millj. kr.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024