„Erfitt að segja upp starfi sem maður elskar“
- Fjölmenni á baráttufundi kennara - 10 uppsagnir í Holtaskóla
Kennarar á Suðurnesjum fjölmenntu á baráttufund sem haldinn var í Andrew´s Theatre á Ásbrú í dag. Kennarar víða um land lögðu niður störf klukkan 13:30 í dag og funduðu um stöðu kjaramála sinna. Kennarar krefjast hækkunar á grunnlaunum sínum og hafa tvívegis á árinu fellt kjarasamninga. Að sögn Maríu Sigurðardóttur, kennara við Holtaskóla í Reykjanesbæ, hafa tíu kennarar við skólann sagt starfi sínu lausu í vikunni. Hún er þeirra á meðal. „Það er afskaplega erfitt að segja upp starfi sem maður elskar og þetta var erfitt skref að taka,“ segir hún. Hún segir kennara vilja laun miðað við menntun og ábyrgð. Hún telur að kennarar séu flestir sammála um 100.000 króna launahækkun og vilja síður miða við prósentuhækkun þar sem launin séu lág.
Hlynur Þór Valsson, kennari við Grunnskólann í Sandgerði, var fundarstjóri fundarins í dag. Í máli hans kom meðal annars fram að kennarar hafi fengið meir en nóg af samningum sem litlu hafa skilað. „Margir kollegar okkar eru byrjaðir að segja upp starfi sínu. Sú staðreynd er hræðileg og óttast ég stöðu skólanna og afleiðingar þessa,“ sagði hann.
Nemendaráð Heiðarskóla sendi fyrr í þessum mánuði frá sér stuðningsyfirlýsingu við kjarabaráttu kennara og ávörpuðu Arnór Daði Jónsson formaður þess og Bergur Daði Ágústsson varaformaður fundinn í dag. Þeir eru báðir synir kennara og telja sig því hafa góða innsýn í starfið. Þeir sögðu starfið miklu meiri vinnu en frá átta til fjögur og launin fáránleg. Eftir fimm ára háskólanám fái kennarar lægri laun en í störfum þar sem ekki er krafist menntunar.