Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fimmtudagur 12. október 2000 kl. 11:22

„Erfitt að hafa byggingasvæði snyrtileg“ -segir Anton Jónsson sem byggir Aðalgötu 1

Byggingaframkvæmdir við Aðalgötu 1 í Keflavík hófust haustið 1999 og gert er ráð fyrir að þeim ljúki í júní á næsta ári. Íbúar hafa kvartað yfir óþrifum á byggingarlóðinni og óttast að þar séu slysagildrur. Anton Jónsson, framkvæmdastjóri Húsagerðarinnar, segir að þetta sé byggingasvæði og erfitt sé að hafa snyrtilegt fyrr en búið er að fullklára húsið. „Vinnan við Aðalgötuna hefur legið niðri undanfarnar sex vikur. Á meðan við vorum að klára fimm parhús í Kjarrmóa, tíu íbúðir, en við byrjum aftur á Aðalgötunni í þessari viku. Þá förum við í að ganga frá þaki og glerja en uppsteypu hússins er nánast lokið“, segir Anton. Hvað með kvartanir íbúa? „Það er ekkert þarna sem getur fokið og ég sé ekki að þarna séu fleiri slysagildrur en öðrum nýbyggingum. Auðvitað getur fólk slasast ef það fer að álpast eitthvað sem það á ekki að vera.“ Aðalgata 1 verður á fimm hæðum og þar verða 18 íbúðir, flestar þriggja herbergja en á fimmtu hæð verða tvær stórar lúxusíbúðir. Að sögn Antons er útsýnið alveg frábært í öllu húsinu. „Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur á þessu ári, en við erum með 42 íbúðir í byggingu á mismunandi stigum. Við afhentum t.d. sex fullkláraðar íbúðir við Heiðarenda í vor og nú erum við að byrja á átta íbúðum í Sandgerði fyrir Búmenn. Ég held að það sé erfitt að finna fyrirtæki hér á Suðurnesjum sem hefur verið með jafnmikið í gangi á þessu ári“, segir Anton.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024