Erfitt að fá leigubíla um helgar
Nokkurrar óánægju hefur gætt vegna leigubílaþjónustu Hreyfils eftir að Ökuleiðir sameinaðist fyrirtækinu og er kvartað yfir því að illmögulegt sé að fá leigubíla hér á svæðinu, sérstaklega eftir lokun skemmtistaða um helgar. Sæmundur Kristinn Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri Hreyfils, segir að fyrirtækið sé ekki að skerða þjónustu við Suðurnesjamenn. Eftir lokun skemmtistaða, sem loka flestir á sama tíma, skapist mikið álag þar sem eftirspurn eftir leigubílum sé mikið meiri en framboðið.
Eftir að Ökuleiðir sameinuðust Hreyfli var bækistöð Ökuleiða í Keflavík lokað og er þjónustunni stjórnað frá stöð Hreyfils í Reykjavík en bílarnir jafnan staðsettir við Leifsstöð. Sæmundur vill þó ekki meina að það bitni á þjónustunni við þá viðskiptavini sem staðsettir eru niður í bæ og þurfi á leigubíl að halda
„Um helgar skapast sama ástandið hér í Reykjavík eins og þarna suðurfrá. Eftir að skemmtistöðunum lokar skapast mjög erfitt ástand þegar hundruðir gesta streyma út á göturnar á sama tíma og vilja fá leigubíl heim og það getur tekið upp undir tvo tíma að taka mesta kúfinn af þessu. Á meðan getur verið erfitt að fá bíl,“ segir Sæmundur. Aðspurður segir hann Hreyfil ekki vera að leggja meiri áherslu á þjónustu við borgarbúa umfram Suðurnesjamenn.
Sæmundur segir þetta ráðast nokkuð eftir því hvar bílarnir eru staðsettir. Stöðin sem slík stýri því ekki heldur er það undir því komið hvar bílarnir eru staðsettir hverju sinni. Bíll sem tekur farþega suðurfrá í bæinn lendi þar því hann sé strax orðinn upptekinn. Á sama hátt tekur bílstjóri ferðir suðurfrá þegar hann hefur farið þangað með farþega úr bænum. „Það gefur auga leið að við getum ekki sent tóman bíl úr Hafnarfirði í heimahús í Keflavík,“ segir Sæmundur.
Tölvukerfi heldur utan um það hvar bílarnir eru staðsettur og sér um að úthluta ferðum eftir því.