Erfiðlega gengur manna leikskóla með fagfólki
Mikið hefur verið rætt um manneklu í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu upp á síðkastið en nokkuð vantar upp á að allar stöður séu mannaðar þá hvort heldur um ræðir af leikskólakennurum eða leiðbeinendum. Víkurfréttir höfðu vegna þessa samband við leikskóla á Suðurnesjunum til að grennslast fyrir um stöðu mála.
Í leikskólanum á Vatnleysuströnd hefur ekki verið vandamál með að finna starfsfólk. „Það hefur gengið vel að manna stöður í leikskólanum Suðurvöllum, reyndar erum við rétt í þessu að auglýsa tvær lausar stöður, annars vegar vantar okkur leikskólakennara og svo í ræstingar,“ sagði Salvör Jóhannesdóttir leikskólastjóri Suðurvalla í Vogum og bætti við að mannekla hefði ekki verið vandamál hjá leikskólanum hingað til.
Starfsmenn leikskólans eru átján talsins og þar af sex leikskólakennarar. Útlit er fyrir að í vetur verði um sextíu börn á leikskólanum sem er töluverð fækkun en hins vegar segir í fréttablaði leikskólans að slíkt geti breyst fyrirvaralítið þar sem bærinn sé í örum vexti.
Í Grindavík eru leikskólarnir Laut og Krókur starfræktir en þar sækja fleiri um en störf eru fyrir. „Hér erum við svo heppin að fleiri sækja um stöður á leikskólanum Laut en við höfum störf fyrir. Fólk hefur ekki úr jafnmiklu að velja hér í Grindavík og á höfuðborgarsvæðinu og því er starf á leikskóla eftirsóttara hér að mínu mati,“ sagði Albína Unndórsdóttir aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Laut. Þar starfa í heildina nítján starfsmenn þar af eru fimm leikskólakennarar, tveir sem stunda diplómanám og ein sem stundar fjarnám í leikskólakennaranámi.
Bylgja Héðinsdóttir aðstoðarleikskólastjóri sagði í samtali við Víkurfréttir að mjög góður stöðugleiki væri varðandi starfsmannamál hjá leikskólanum Króki í Grindavík. Þá væru um fimm faglærðir kennarar að vinna hjá leikskólanum auk þriggja annarra sem eru í námi og um tólf til fimmtán leiðbeinendur. Fjöldinn færi svolítið eftir því hversu mörg börn væru hverju sinni á leikskólanum en þegar börn hafa náð átján mánaða aldri fá þau inngöngu í leikskólann sé þess óskað.
Í Sandgerði fjölgar leikskólakennurum sem vinna í leikskólanum. „Það hefur gengið vonum framar að manna stöður hjá okkur í Sólborg. Við erum meira segja svo heppin að nú fjölgar leikskólakennurum úr tveimur yfir í fimm. Starfsfólk okkar hefur verið duglegt að sækja nám og útskrifaðist ein sem leikskólakennari nú í vor og tvær aðrar eru í fjarnámi frá Háskólanum Akureyri. Fleira starfsfólk sótti um en fékk ekki inn, áhuginn fyrir náminu er því mjög mikill,“ sagði Jórunn Guðmundsdóttir leikskólastjóri Sólborgar í Sandgerði. Í leikskólanum starfa tuttugu og þrír í fimmtán stöðugildum, þar af eru nítján sem vinna inn á deildum með níutíu og sjö börnum frá eins árs aldri.
„Helst hefur vantað fagfólk til okkar en hingað til höfum við náð að manna stöðurnar. Í allt erum við með 7,5 stöðugildi inn á deildum hjá okkur og þar af eru 2,25 stöðugildi mönnuð af fagfólki,“ sagði Elsa Pálsdóttir leikskólastjóri Gefnarborgar í Garði.
„Reykjanesbær er ekki í vandræðum með starfsfólk, reyndar vantar alltaf á haustin og hefur bærinn því auglýst eftir starfsfólki og hingað til hefur alltaf náðst að manna stöðurnar. Stóra vandamálið er auðvitað að manna þær með fagfólki. Þó hefur ástandið lagast mikið enda útskrifaðist töluverður fjöldi leikskólakennara í vor,“ sagði Guðríður Helgadóttir leikskólafulltrúi, en nýjar tölur um hversu margir leikskólakennarar væru starfandi á leikskólum bæjarins eru ekki tilbúnar eins og er. „Það má vænta þess að töluverð breyting verði á hlutfalli fagfólks og leiðbeinenda í ár,“ sagði Guðríður. Tölurnar eru væntanlegar í október.
Vf-myndir úr safni.