Er þetta öskuskýið yfir Keflavíkurflugvelli?
Íslendingar fá í dag að bragða á eigin meðali með lokun flugvalla, loks þegar flugvellir um Evrópu eru að opna. Greint hefur verið frá lokun Keflavíkurflugvallar í erlendum miðlum í dag. Ljósmyndari Víkurfrétta tók meðfylgjandi mynd af „öskuskýinu yfir Keflavíkurflugvelli“ um hádegisbilið í dag, en eins og sjá má á myndinni er erfitt að greina hættuna með berum augum þegar horft er upp í heiðan himininn.
Samkvæmt upplýsingum Veðurstofu, og vitnað er til á www.pressan.is, hefur heldur dregið úr öskufalli frá eldgosinu í Eyjafjallajökli en spáð er suðaustlægri átt í dag og vaxandi vindi. Eitthvað öskufall er nú í átt að Fljótshlíð og verður líklega áfram norðvestur af eldstöðinni næstu daga. Í dag var tilkynnt um öskufjúk á Rangárvöllum og í Hveragerði. Gert er ráð fyrir öskumistri til norðvesturs frá eldstöðinni sem getur jafnvel náð í örlitlum mæli til höfuðborgarsvæðisins í dag og næstu daga. Með öskumistri er átt við truflun í skyggni vegna ösku og mælanlega aukningu í svifryksmengun. Mjög ólíklegt er að sýnilegt öskufall verði á höfuðborgarsvæðinu næstu daga og því ekki ástæða til sérstakra aðgerða.
Í tilkynningu frá sóttvarnalækni segir að þegar öskumistur er til staðar eða aukin svifryksmengun mælist þá er einstaklingum með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma ráðlagt að halda sig innandyra en notkun gríma er óþörf. Búist er við að svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við eldgosið verði svipuð og oft verður vegna umferðar og að viðvaranir sem kunna að koma frá heilbrigðiseftirliti verði í samræmi við það. Notkun gríma er ekki ráðlögð nema þegar sýnilegt öskufall er til staðar og þá einkum hjá einstaklingum með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma. Ef um mikið öskufall er að ræða er öllum sem þurfa að vera úti við ráðlagt að nota grímur og augnhlífar. Sóttvarnalæknir gefur út staðbundnar tilkynningar þegar og ef notkun gríma verður talin nauðsynleg.
Í dag funduðu viðbragðsaðilar þar sem farið var yfir stöðu mála varðandi innanlands- og millilandaflug. Samkvæmt upplýsingum frá Flugstoðum tóku, frá kl. 04:00 þann 23. apríl, gildi takmarkanir á flugumferð til og frá Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli. Í dag var flogið til og frá Reykjavíkurflugvelli í sjónflugi, þrátt fyrir takmarkanir á flugumferð. Sett var upp ásamt hlutaðeigandi aðilum aðgerðaráætlun fyrir Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll þar sem flugfélögin hafa áætlað, að þau millilandaflug sem fara frá Íslandi fari um Akureyrarflugvöll, svo lengi sem völlurinn getur annað flugumferð.
Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson