Enskir óþekktarormar sóttir á einkaþotu
Ensku óþekktarormarnir og landsliðsmennirnir Mason Greenwood og Phil Foden voru sóttir með einkaþotu til Keflavíkurflugvallar í kvöld. Þeir urðu uppvísir að því að brjóta sóttvarnareglur eftir landsleik Íslands og Englands, þegar þeir buðu íslenskum stúlkum upp á herbergi á hóteli þar sem þeir héldu til.
Einkaþota á vegum félagsliða þeirra Greenwood og Foden lenti á Keflavíkurflugvelli á áttunda tímanum í kvöld. Eftir að hafa tekið eldsneyti hélt hún aftur utan til Manchester.
Þegar þetta er skrifað er þotan á flugi yfir Skotlandi en hún fór frá Keflavíkurflugvelli þegar klukkuna vantaði um 20 mínútur í átta í kvöld.
Athæfi leikmannanna kostaði þá sætið í enska landsliðinu en þeir máttu ekki eiga nein samskipti við liðsfélaga sína eða aðra starfsmenn enska landsliðsins eftir að atvikið komst upp.