Ennþá vonarglæta í kísilveri
Enn er vonarglæta í því að kísilver rísi í Helguvík þó á móti hafi blásið á síðustu dögum og vikum. Globe Speciality Metals, sem á 20% í Íslenska Kísilfélaginu, hefur dregið lappirnar í málinu og horft til þess að kaupa gjaldþrota kísilver í Kanada og á meðan hefur fjárfesting á Íslandi setið á hakanum.
Ekkert hefur orðið af samningum við Landsvirkjun og sá frestur sem þar var gefinn er runninn út.
Á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á þriðjudagskvöld var farið yfir stöðuna í málum Íslenska kísilversins. Þar var upplýst að Magnús Garðarsson, forstjóri Íslenska kísilfélagsins, sem á 80% í fyrirtækinu, væri fullur bjartsýni um að fá inn nýjan meðeiganda sem tæki yfir 20% hlut Globe Speciality Metals. Magnús væri hins vegar í þeirri stöðu í augnablikinu að fulltrúar Globe Speciality Metals væru með 3 menn í stjórn en Magnús 2. Erlendi aðilinn hafi fengið þriðja manninn inn þegar hann greiddi inn á lóð kísilversins í Helguvík. Nú þarf að kalla til stjórnarfund í félaginu til að leiðrétta þessa stöðu út frá eignarhaldi, þannig að íslenskir meirihlutaeigendur fái aftur meirihlutastjórn í félaginu og geti haldið áfram þeirri vinnu sem þarf að vinna til að gera kísilver í Helguvík að veruleika.