Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ennþá stórt NEI hjá Garði, Sandgerði og Grindavík
Frá aðalfundi SSS í Garði 2016. Kolbrún Jóna Pétusdóttir næsti formaður SSS og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Þriðjudagur 25. október 2016 kl. 06:00

Ennþá stórt NEI hjá Garði, Sandgerði og Grindavík

- Sjóðheitar umræður um sameiningarmál á aðalfundi SSS

Mjög heitar umræður urðu um sameiningarmál á aðalfundi SSS, Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, í Garði um þar síðustu helgi. Fulltrúar Reykjanesbæjar lögðu fram tillögu um að gerð yrði úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaga á Suðurnesjum. Tillagan féll í grýttan jarðveg hjá Garðmönnum, Sandgerðingum og Grindvíkingum. Vogamenn voru hins vegar samþykkir tillögunni og töldu það vera bæjarbúanna að ákveða síðan þegar niðurstöður kæmu úr óháðri könnun. Til upprifjunar má nefna að fulltrúar Reykjanesbæjar hótuðu að slíta öllu samstarfi við hin sveitarfélögin á aðalfundinum í fyrra.

Gunnar Þórarinsson úr meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar lagði fram tillöguna sem hann sagði alls ekki vera ósk um sameiningu heldur væri eingöngu verið að ræða um að gera könnun um kosti og galla sameiningar sveitarfélaga á Suðurnesjum. Þar skyldu kannaðar ýmsar sameiningar. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga styrkti svona könnun og því yrði um mjög lítinn kostnað að ræða við gerð hennar. Gunnar sagði að það væri mikilvægt að sveitarfélögin á Suðurnesjum settu sig í stellingar í ljósi stórtíðinda frá miklum vexti í flugstarfsemi í og við Keflavíkurflugvöll. Huga þyrfti að innviðum og mörgum málum sem munu koma upp á borðið í ljósi þess að yfir 400 ný störf verða til árlega næstu áratugina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindvíkingar hafa aldrei verið í neinum sameiningargír og líklega er langt í það. Kristín María Birgisdóttir, bæjarfulltrúi í Grindavík, sagði að þessi tillaga yrði ekki samþykkt. Enginn hvati væri til staðar í bæjarfélaginu. Sandgerðingar sögðu að smærri sveitarfélög græddu aldrei á sameiningu. „Ég er ekki til í svona partý en ég er til í partý með Garðmönnum,“ sagði Fríða Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi úr Sandgerði. Þegar hér var komið við sögu kom innlegg frá Kolbrúnu Pétursdóttur, bæjarfulltrúa úr Reykjanesbæ:  „Mér finnst við þurfa að taka þessa tilfinningasemi út og spyrja okkur hvað sé skynsamlegt að gera. Langar ykkur í alvöru ekki að vita hvað kæmi úr svona könnun, hver hagkvæmnin gæti verið í því að sameina sveitarfélög,“ spurði hún.

Svarið var einfalt hjá fulltrúum Garðs, Sandgerðis og Grindavíkur: Nei. Bæjarfulltrúi úr Vogum sagði það á valdi íbúanna að kjósa um sameiningu, því styddu Vogamenn tillöguna. Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, sagði að samkvæmt búsetuþróun væri gert ráð fyrir að íbúar á Suðurnesjum verði um 35 þúsund eftir rúman áratug. „Miðað við þá fjölgun þarf að byggja sex nýja grunnskóla, tíu leikskóla, nýjan framhaldsskóla, svo fátt eitt sé nefnt. Við erum að tala um meiri breytingar á okkar svæði en nokkru öðru á Íslandi. Við verðum að bregðast við.“ Böðvar Jónsson og Baldur Guðmundsson, bæjarfulltrúar úr Reykjanesbæ, bættu við í umræðuna og sögðu mikilvægt að geta brugðist við tíðindum um þennan mikla vöxt sem í vændum væri í atvinnulífinu. Skoða þyrfti breytingar í stjórnsýslu og hvernig hægt væri að breyta og bæta. Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, sagði að ljóst væri að bæjarfulltrúar minni sveitarfélaganna væru hræddir. „Það heyrast fleiri og fleiri raddir um að það sé tóm della að vera að reka 5 sveitarfélög á þessu svæði. Við þurfum að leyfa umræðunni að koma upp og legg ég til að stjórn SSS kalli fram umræðu í sveitarfélögunum.“

Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, bæjarfulltrúi úr Sandgerði sagðist ekki vera hræddur bæjarfulltrúi. „Við erum að tala við Garðmenn um sameiningu. Ég vil byrja á því og skoða svo framhaldið á eftir“. Félagi hennar, Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðis, sagði tillöguna ekki tímabæra. Skynsamlegast væri að leyfa Sandgerðingum og Garðmönnum að ljúka við sína sameiningarumræðu. Of dýrt væri að skoða fleiri kosti á sama tíma. Jónína Hólm og Einar Jón Pálsson úr Garði sögðu þau einfaldlega ekki hafa bakland í að samþykkja tillöguna. All nokkur umræða hafi átt sér stað í Garði að undanförnu og hún væri á þá leið að skoða fyrst sameiningu við Sandgerði.

Páll Pálsson, þingmaður úr Grindavík, var ekki að skafa utan af hlutunum og sagði það yfirgang hjá fulltrúum Reykjanesbæjar að mæta með tillöguna á fundinn. „Mér finnst þetta vera dónaskapur að mæta með svona tillögu á meðan sveitarfélög á svæðinu eru að tala saman. Hún er ekki tæk þessi tillaga. Það þarf að fara fram einhver vinna áður,“ sagði þingmaðurinn en bróðir hans, Pétur, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Vísis í Grindavík, sagði fyrr á árinu að sameining allra sveitarfélaga á Suðurnesjum væri það eina rétta.

Það var mjög áhugavert að fylgjast með umræðunum sem líktust á stundum rifrildi leikskólakrakka í sandkassanum. Svo heit var hún að forseti bæjarstjórnar Sandgerðis sagði að það væru ekki góð skilaboð út í samfélagið á Suðurnesjum að það væri óeining meðal sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum.
Fulltrúar Reykjanesbæjar voru hvattir til að draga tillöguna til baka því ljóst væri að það væri ekki eining um hana, og vísa henni til stjórnar sambandsins, SSS, sem gæti fylgt henni eftir. Gunnar Þórarinsson gerði það og sagði: „Það er leitt að það skuli ekki vera hægt að leita eftir upplýsingum um það hvort það sé hagkvæmt eða ekki að einhver sameining fari fram.“