Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Enn tekist á um leikskóla í Sandgerði
Fimmtudagur 29. nóvember 2007 kl. 11:22

Enn tekist á um leikskóla í Sandgerði

Gert er ráð fyrir að um 70 milljónum verði varið til hönnunar og byggingar nýs leikskóla í Sandgerið á næsta ári. Þetta kom fram á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku, en undanfarið hafa skotin gengið milli meirihluta og minnihluta um leikskólamál. Minnihlutinn skammaði þá meirihlutann fyrir að hafa ekki brugðist nógu hratt við auknum fjölda barna með byggingu nýs leikskóla, en þess í stað farið í uppkaup og endurnýjun á öðru húsnæði.

Skeytasendingarnar halda enn áfram og nú er það S-listinn, sem er í minnihluta, sem bókar:

Bæjarfulltrúar S- listans fagna yfirlýsingu meirihlutans frá síðasta fundi bæjarstjórnar um að nýr leikskóli á nýjum stað sé kominn á dagskrá og gleðjast yfir því að tillögur minnihlutans skuli rata inn á verkefnalista meirihlutans.

Vissulega hefði mátt spara sveitarfélaginu töluverða fjármuni með því að setja vinnu við nýjan leikskóla af stað um leið og tillaga minnihlutans þess efnis kom fram í nóvember 2006.  Þess í stað ákvað meirihlutinn að fara út í þann dýra millileik að kaupa og breyta Sólheimum 1 – 3 með öllum þeim göllum sem því fylgja og bent er á í greinargerð með tillögu minnihlutans á 244. fundi bæjarstjórnar 8. nóvember s. l.. Heildarkostnaðurinn við framkvæmdir á Sólheimum verður líklega nálægt 40 milljónum. Það finnst bæjarfulltrúum S- listans skammtímalausn og benda á að ódýrari leið hefði mátt finna til að tryggja næg leikskólapláss á framkvæmdatíma nýs leikskóla.


Í framhaldi af bókun S - lista benti meirihluti bæjarstjórnar á að í málefnasamningi D og K-lista í meirihlutasamstarfi, frá 30.05. 2006, eru leikskólaframkvæmdir settar í forgangsröð. En þar segir orðrétt: „Nýbygging leikskóla í nýju hverfi verður hannaður fyrir sunnan knattspyrnuvöll Reynis og byggður í takt við þörf á leikskólarýmum”.

Enn virðist eitthvað ósagt í þessu máli því fulltrúar S-lista áskildu sér rétt til að bóka frekar um þetta mál á síðari stigum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024