Enn styrkir Skötumessan í Garði góð málefni
Það fylgir því góð tilfinning að geta orðið að liði. Skötumessan er enn að styðja við bakið á góðum málefnum og einstaklingum. Frá því í sumar hafa styrkir Skötumessunnar í Garði numið 950.000,- kr til 7 einstaklinga og 2ja félaga.
Að þessu sinni styrktum við Óðin Frey Þórisson sem er 10 ára heyrnalaus drengur sem býr í Reykjanesbæ. Óðinn Freyr hefur lengi langað til að eignast iPad og þegar okkur barst það til eyrna var haft samband við Björn Inga Pálsson hjá Omnis í Reykjanesbæ og hann gaf okkur alla álagningu búðarinnar á IPad 3G sem er að verðmæti 124.000 kr. og við afhentum Óðni Frey gjöfina að viðstöddum föður hans Þóri Egilssyni og ömmu hans henni Þuríði Guðmundsdóttur í Hausthúsum í Garði. Omnis og Björn Ingi hafa alltaf brugðist vel við þegar við höfum leitað til þeirra um samstarf en fyrr í sumar gáfum við saman ungri stúlku sem lá veik á Landspítalanum IPad.
Þá afhentum við Petrínu Sigurðardóttur formanni Íþróttafélagsins NES 100.000.- kr. styrk til starfsemi íþróttafélags fatlaðra í Reykjanesbæ. Stjórnarmenn og foreldrar í félaginu hafa aðstoðað okkur á Skötumessunni við framreiðslu og frágang eftir veisluna, segir í tilkynningu frá Skötumessunni í Garði.