Enn skelfur jörð á Reykjanesi
Skjálftahrinan á Reykjanestá hefur haldið áfram í dag og hefur nokkur virkni verið á svæðinu. Mest er um að ræða smáskjálfta upp á 1,3 – 1,9 á Richter. Þó mældist einn upp á 2,6 á Richter laust eftir klukkan þrjú í dag um 10, 8 km SSV af Geirfugladrangi á Reykjaneshrygg, sem er á sama belti. Annar skjálfti upp á 2,9 á Richter mældist nokkru sunnar um hálffimmleytið í morgun.
Stærstu skjálftarnir í þessari hrinu urðu í nótt, annar upp á 3,2 á Richter NNA af Reykjanestá og hinn upp á 3,2 á Richter NA af Grindavík. Ekki er vitað til þess að þeir skálftar hafi raskað næstursvefni Grindvíkinga.
Mynd: Á þessu korti frá Veðurstofunni má sjá upptök þeirra skjálfta sem verið hafa í dag á Reykjanestá. Grænu stjörnurnar sýna upptök stærri skjálftanna í nótt.