Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Enn óveðurský á lofti
Kristinn Jakobsson í ræðustól í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Miðvikudagur 17. apríl 2013 kl. 10:23

Enn óveðurský á lofti

- segir Framsókn í Reykjanesbæ. „Góður ársreikningur“ segja Sjálfstæðismenn. „Eigum að fara varlega með skrautlýsingar,“ segir Samfylking.

„Ársreikningar Reykjanesbæjar fyrir árið 2012 sýna betri niðurstöðu en mörg undanfarin ár. En óveðursskýin eru enn á lofti,“ sagði Kristinn Jakobsson, oddviti Framsóknarflokksins á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær. Til umræðu var m.a. ársreikningur bæjarfélagsins 2012.

Kristinn Jakobsson bókaði um málið á fundinum:
„Reglubundnar tekjur standa ekki undir rekstrargjöldum og fjármagnsliðum. Til að brúa bilið er gripið til sölu skuldabréfs. Rekstur samstæðu er þungur og skila ekki nema um 10% framlegð þegar hann þarf að skila 15%. Reykjaneshöfn er skuldsett langt út fyrir alla bryggjusporða, skuldir hennar numu um síðustu áramót um 6,7 milljörðum króna, tekjur hafnarinnar námu 181 milljón en rekstrargjöld 199 milljónum, vextir af skuldum hafnarinnar voru 650 milljónir og því var tapið 667 milljón krónur. Þetta kallar meirihlutinn ágætan rekstur. Ég verð að mótmæla því, ég sé ekkert ágætt við þennan rekstur.“

Árni Sigfússon, bæjarstjóri lagði fram bókun frá meirihluta Sjálfstæðismenna um góðan rekstur bæjarsjóðs. Þar segir m.a. að allar kennitölur bæjarsjóðs sem miðað sé við séu jákvæðar.

„Tekist hefur að lækka skuldir og skuldbindingar um þrjá og hálfan milljarð  um leið og eiginfjárhlutfall, sem mælir eignir á móti skuldum vex úr 20,7% í 25%. Engin erlend lán hvíla á Reykjanesbæ og engin ný lán voru tekin fyrir bæjarsjóð. Hreint veltufé frá rekstri er um 358 milljónir króna. Handbært fé frá rekstri er um 300 milljónir króna. Veltufjárhlutfall er 1,04 Samstæðureikningurinn er Reykjanesbæ áfram erfiður vegna Helguvíkurhafnar, þótt hann skili sterkri stöðu fyrir afskriftir og fjármagnsliði,“ segir m.a. í bókun Sjálfstæðismanna.

Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingar sagði skuldabréfasölu (Magma Energi) fyrir 3,5 milljarða hafa bjargað bænum og því sýni þessar tölur í ársreikningnum ekki rétta mynd af rekstri bæjarins. „Við eigum að fara varlega með allar skrautlýsingar í þessum efnum. Eignastaðan hefur bjargað okkur undanfarin ár. Sjálfstæðismenn hljóta að finna eitthvað fyrir þetta ár til að selja,“ sagði Friðjón m.a. á fundinum.

Árni Sigfússon sagði rétt að erfiðleikar væru í samstæðunni en sagði orð Friðjóns bull, einungis 150 milljónir væru tengdar eignasölu í ársreikningunum. „Það er leitt að menn skuli ekki geta verið ánægðir með þessa niðurstöðu. Rekstur bæjarsjóðs er sterkur. Við felum okkur ekki á bakvið slæma stöðu Helguvíkurhafnar en þegar hún fer á fullt verður hún fljót að borga sig til baka. Það má heldur ekki gleyma mörgum félagslegum skyldum og margvíslegu þjónustuhlutverki Reykjanesbæjar sem kosta mikla peninga,“ sagði bæjarstjórinn meðal annars.

Umræður urðu ekki mjög heitar eins og oft vill verða í kringum ársreikninga en þetta var eingöngu fyrri umræða um reikninginn. Umræðurnar geta orðið meiri í seinni umræðunni eftir mánuð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024