Enn óljóst hvaðan lykt í síðustu viku kom
- Umhverfisstofnun engu nær
Lykt lagði frá Helguvík yfir Heiðarhverfi í Reykjanesbæ á miðvikudag og fimmtudag í síðustu viku og bárust Umhverfisstofnun 18 ábendingar frá íbúum. Þá var greint frá því á vef Víkurfrétta að óljóst væri hvaðan lyktin kom. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun nú í morgun eru fulltrúar stofnunarinnar enn engu nær. „Við fórum yfir málið í síðustu viku og fórum í eftirlit í kísilverksmiðjuna á miðvikudag og fundum ekki lykt þar né í nágrenninu. Það var slökkt á ofninum á fimmtudag líka og því ekki líklegt að lyktin komi frá kísilverinu. Þó er ekkert útilokað með það. Við vorum í sambandi við Síldarvinnslunna í Helguvík og einnig Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja en erum í raun engu nær, því miður,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, teymisstjóri eftirlitssviðs hjá Umhverfisstofnun.