Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Enn mest atvinnuleysi á Suðurnesjum
Föstudagur 11. janúar 2008 kl. 18:03

Enn mest atvinnuleysi á Suðurnesjum

Atvinnuleysi  á Suðurnesjum mældist 2,4% í desember og var hvergi hærra á landinu. Norðurland eystra kemur næst með 1,8% en hlutfall á landsvísu er 0,8%. Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu Vinnumálastofnunar um atvinnuástand á Íslandi.

Meðalfjöldi atvinnulausra á Suðurnesjum í desember var 243 eða 2,4%, en var 2,2% í nóvember. Atvinnulausum hefur fjölgað um 18 að meðaltali frá nóvember. Atvinnulausum körlum hefur fjölgað um 4 frá því í nóvember og atvinnulausum konum um 14 frá því í nóvember. Atvinnuleysi karla mælist nú 1,5% en var 1,4% í nóvember og atvinnuleysi kvenna mælist nú 3,8% í desember en 3,5% í nóvember s.l.

Í desember 2006 mældist atvinnuleysi á Suðurnesjum 3,0% en athyglisvert er að líta á heildartölur fyrir árin 2006 og 2007 þar sem fram kemur að atvinnulausum fjölgar á Suðurnesjum, en fækkar í öðrum landshlutum nema Vesturlandi þar sem er óveruleg aukning.

Árið 2006 voru að jafnaði 199 atvinnulausir, en 2007 voru það 243. Þetta er aukning upp á 22% en á landsvísu fækkaði atvinnulausum um 19%.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024