Enn mælist skjálftavirkni við Kleifarvatn
Skjálfti af stærð M3,4 varð við Kleifarvatn þegar klukkan var gengin níu mínútur yfir miðnætti. Annar skjálfti var á sömu slóðum kl. 23:42 þann 4. maí, hann var M2,9 að stærð og fannst einnig á höfuðborgarsvæðinu. Skjálfti af sömu stærð mældist þann 1. maí á sömu slóðum og fannst hann einnig á höfuðborgarsvæðinu.
Skjálftahrina byrjaði við Krýsuvík og Kleifarvatn í gær og hafa nokkur hundruð skjálftar orðið í hrinunni. Þar af um tugur skjálfta af stærðinni M2 eða stærri. Sá stærsti var M3,4 laust eftir miðnætti eins og segir hér að framan.
Enn mælist skjálftavirkni við Kleifarvatn en heldur hefur hægt á henni, segir á vef Veðurstofu Íslands.