Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Enn leitað að manni sem lokkar börn í bíl með sælgæti
Þriðjudagur 31. maí 2005 kl. 10:52

Enn leitað að manni sem lokkar börn í bíl með sælgæti

Lögreglu hefur enn ekki tekist að hafa uppi á manni á rauðri bifreið sem reynt hefur að lokka börn í bílinn til sín með sælgæti við skóla í Reykjanesbæ. Hins vegar hefur lögreglan hreinsað mann af grun um athæfið en aðsúgur var gerður að heimili hans fyrir um viku síðan og hefur maðurinn og fjölskylda hans mátt þola mikið ónæði. Lögreglan staðfestir að umræddur maður tengist málinu ekki á neinn hátt.

Að undanförnu hafa lögreglunni í Keflavík borist tilkynningar um mann á rauðri bifreið sem hafi verið að reyna að lokka ung börn upp í bifreiðina til sín. Um er að ræða allt að fjögur tilvik, sennilega á tímabilinu frá 19.05.05 til 25.05.05. Börnin sem fyrir þessu hafa orðið eru nemendur í Holtaskóla og Myllubakkaskóla í Keflavík og Njarðvíkurskóla. Málið er óleyst og enn sem komið er beinist ekki grunur að neinum tilteknum aðila. Lögreglumenn hafa heimsótt grunnskóla í Reykjanesbæ til að ræða við nemendur og kennara um málið og skólastjórnendur hafa vakið athygli foreldra á því og hvatt til varúðar í samskiptum barna við ókunnuga.

Lögreglan í Keflavík hvetur foreldra til að brýna það fyrir börnum sínum að fara ekki upp í bifreiðar hjá ókunnugum. Jafnframt óskar lögreglan eftir því að fólk tilkynni um grunsamleg atvik. Nokkuð hefur borist af ábendingum sem lögreglan hefur kannað og er nú að kanna.

Bæjarbúar virðast margir nokkuð óttaslegnir vegna málsins og æsings hefur orðið vart meðal barna og unglinga. Þetta kom meðal annars fram í því að aðsúgur var gerður að heimili í Reykjanesbæ vegna rauðrar bifreiðar á heimilinu sem einhverjir aðilar töldu að tengdist málinu. Lögreglan hefur rannsakað þennan þátt málsins sérstaklega og getur staðhæft að umrædd bifreið tengist ekki málinu, eins og segir hér að framan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024