Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Enn heitt í kolunum á bæjarstjórnarfundi
Miðvikudagur 3. desember 2014 kl. 14:02

Enn heitt í kolunum á bæjarstjórnarfundi

Talsverður hiti var á bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar á þriðjudag, þar sem ýmis málefni voru til umræðu. Sóknin var þar rædd en Sjálfstæðismenn gagnrýndu þær aðgerðir og töluðu um að meirihluti hafi ekki beitt réttum aðferðum er varða niðurskurð. Þá sérstaklega hvað varðar afnám fastrar yfirvinnu og fastra aksturspeninga. Fulltrúar minnihluta sögu að nær væri að Sjálfstæðismenn bæðust afsökunar á núverandi stöðu Reykjanesbæjar.

Kristján Jóhannsson hjá Beinni leið var viðstaddur sinn fyrsta bæjarstjórnarfund. Hann spurði Sjálfstæðismenn að því hvort þeir ætluðu ekki að biðjast afsökunar. „Það væri notalegt fyrir þá kjósendur sem ekki kusu ykkur, þó það væri ekki nema einu sinni, að heyra afsökunarbeiðni á því að svona er komið fyrir bænum. Hún hefur ekki komið enn. Við vitum hvernig staðan er, ætlið þið að að axla ábyrgð. Segja að ykkur hafi mistekist á vaktinni síðstu 12 ár. Á það ekkert að gerast?“ spurði Kristján og bætti því við að nú væri lag að slíðra sverðin. Fólki gæti greint á um aðferðirnar en samhugur væri um að laga stöðuna og ná árangri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sjálfstæðismaðurinn Böðvar Jónsson sagðist ekki ætla að biðjast afsökunar á þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað í Reykjanesbæ. „Ég veit ekki hvernig við komust út úr þeirri umræðu að Sjálfstæðisflokknum sé kennt um allt sem hér er slæmt og að við gagnrýnum ykkur fyrir vinnubrögðin. Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á því að hafa verið að byggja upp skólamál hér á síðustu árum. Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á því að hafa byggt tónlistarskólann eða lagt peninga í menningarmál. Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á því að hér hafi verið byggð upp þrjú eða fjögur hverfi sem tekið hafi við fjölda nýrra íbúa. Ég ætla ekki að biðjast afsökunar á því að við höfum lagt grunn að atvinnuuppbyggingu í Helguvík. Ég er alveg tilbúinn að taka þá umræðu um hvort menn hafi farið allt of hratt. Ég get beðist afsökunar á því að atvinnuuppbyggingin sem við lögðum upp með gekk ekki upp, það eru ýmsar ástæður fyrir því en ég get alveg beðist afsökunar á því.“

Kjartan Már bæjarstjóri segir að Reykjanesbær hafi átt þrjá kosti í stöðunni. Fyrir það fyrsta var hægt að skerða fasta aksturspeninga og fasta yfirvinnu. „Það þýði þó ekki að ekki verði greitt fyrir yfirvinnu eða akstur. Það er alls ekki þannig. Þetta var leiðin sem var farin. Hinar leiðirnar voru þá annars vegar að segja upp einhverjum tugum starfsmanna, 60-70 manns sem hefðu orðið atvinnulausir. Þriðja leiðin hefði verið að taka jafnan niðurskurð á alla, líka þá sem ekki njóta neinna umframlauna. Sú leið var ekki fær. Engin þessara leið er góð, það skal ekki nokkur maður halda. Sú leið sem var valin er umdeild. Ég segi bara sem betur fer þá höfum við bara ekki mikla reynslu í að bjarga svona sveitafélagi, ekkert okkar. Þó oft hafi verið erfitt. Ekkert sveitarfélag af þessari stærðargráðu hefur verið í þessari stöðu sem við erum í núna. Það er vel fylgst með því sem við erum að gera. Við erum örugglega að gera einhver mistök og við eigum örugglega eftir að gera einhver mistök á leiðinni. Það breytir því ekki að stóra myndin er að koma Reykjanesbæ fyrir vind úr þessari stöðu sem við erum í. Við megum ekki missa sjónar af stóra verkefninu. Það er bara ekki hægt að takast á við svona stórt verkefni án þess að einhverjum líki eitthvað illa, “ sagði bæjarstjórinn.