Enn hasar á leigubílamarkaðnum
Enn eru væringar á leigubílamarkaðnum á Suðurnesjum en það sem nú fréttist er að breytingar séu í gangi á Aðalbílum, en nú er stöðin ekki lengur með leyfi til reksturs. Ef hringt er í skiptiborð Aðalbíla er ekki svarað og símtalið færist í talhólf.
Sigurður Hauksson, deildarstjóri hjá Vegagerðinni, sem sér um leyfisveitingar til reksturs leigubílastöðva, sagði í samtali við Víkurfréttir að rekstrarleyfi Aðalbíla hafi verið dregið til baka með símtali þann 1. mars. „Það hafa engar umsóknir borist síðan þá um að leyfin verði endurnýjuð,“ sagði Sigurður.
Nær allir bílstjórar hjá Aðalbílum og BSH yfirgáfu stöðina þegar Nýja leigubílastöðin keypti reksturinn og var svo komið að innan við fimm bílstjórar voru eftir. Samkvæmt reglum Vegagerðarinnar er gert ráð fyrir því að minnst tíu bíla þurfi til að reka stöð.
Einar Ágústsson, framkvæmdastjóri Nýju leigubílastöðvarinnar, sagði í samtali við Víkurfréttir að þeir væru alls ekki hættir að þjónusta Suðurnesin en þeir væru í breytingum, m.a. á símsvöruninni.
„Ég neita því ekki að það kom okkur á óvart hversu margir hættu en við verðum bara að bregðast við því. Við erum nú að fara yfir stöðuna og sjáum sóknarfæri á staðnum, m.a. í uppbyggingunni sem verður á Vallarsvæðinu. Við viljum umfram allt að fólkið hér á svæðinu njóti góðrar þjónustu.“
Það er ekki útlit fyrir að róist í þessum bransa á næstunni því nú eru til afgreiðslu stjórnsýslukærur þar sem eigendur NL hafa gert athugasemdir við not Aðalstöðvarinnar-BSH við BSH nafnið. Þar er niðurstaðna beðið.
„Nú þegar Aðalbílar eru hættir er bara ein leigubílastöð í Reykjanesbæ“, sagði Ingólfur Jónsson, stöðvarstjóri Aðalstöðvarinnar-BSH í samtali við Víkurfréttir. „Fyrir íbúa svæðisins er bara ein stöð og eitt númer til að panta sér bíl. Það er hjá okkur í 420-1212.“