Enn gýs og land rís
Lítil sem engin breyting virðist hafa orðið við gosstöðvarnar í nótt. Enn gýs á syðri hluta sprungunnar og skvettist þar úr 10-15 gosopum. Gosórói virðist hafa haldist stöðugur nú í sólarhring. Hraunrennsli er einungis áætlað í mesta lagi 5% af því sem það var í upphafi. Þetta kemur fram í færlsu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands á Facebook.
Lifi eldgosið fram á kvöld verður það orðið langlífara en öll þrjú gosin sem orðið hafa í vetur.
Hraunjaðar virðist hvergi vera skríða fram lengur, heldur er hraunið tekið að bunkast upp innan nýju hraunbreiðunnar og gígskálar eru byrjar að byggjast upp utan um gosopin.
Þá virðast fyrstu GPS mælingar eftir upphaf eldgossins benda til þess að landris haldi áfram undir Svartsengi. Ris síðasta sólarhringinn sést ágætlega á mælum í næsta nágrenni Svartsengis, en þó ber að hafa í huga að um óyfirfarnar niðurstöður er um að ræða, segir í færslu hópsins.
Hér má sjá tengil á vefmyndavél Live from Iceland sem sýnir frá gosinu.