Engum hleypt inn á svæðið fyrr en það verður metið öruggt
Grindavík er lokuð öllum og því ekki heimilt að fara til að bjarga verðmætum eða huga að húsum. Ekki er vitað hversu lengi þetta ástand mun standa en látið verður vita um leið og það breytist.
„Búið ykkur undir að það muni standa í talsverðan tíma en við erum að horfa til nokkurra daga í einu. Engum verður hleypt inn á svæðið fyrr en það verður metið öruggt. Bæði er um að ræða hættu vegna jarðhræringa og einnig vegna skemmda á götum og öðrum mannvirkjum,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra á upplýsingafundi í hádeginu.
Hann ítrekaði að allir Grindvíkingar skrái sig hjá 1717 öryggisins vegna. „Þetta er viðbragðsaðilum mikilvægt svo við getum átt greið samskipti við íbúanna.“