Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 24. maí 2000 kl. 18:58

Englar í Myllubakkaskóla

Skömmu fyrir páska hóf 10. bekkur St. í Myllubakkaskóla að vinna verkefni eftir sögu Einars Más Guðmundssonar, Englar alheimsins. Ákveðið var að samþætta þannig íslensku, tölvu og myndmennt. Nemendur völdu hver sína sögupersónu og skrifuðu lýsingu á henni inn í tölvu. Að því loknu teiknuðu þeir persónurnar og sniðu á þær föt. Útbúinn var strætisvagninn „Kleppur-hraðferð” og lyfja- og veruleikaský voru klippt út. Þegar hefjast átti handa við að teikna og mála „höllina”, Klepp, kom babb í bátinn. Hvergi fannst nógu góð mynd af Kleppi. Svana myndmenntakennari hringdi að lokum inn á Klepp til að fá úrlausn mála. Sævar Bjarnason, starfsmaður þar, sagðist geta útvegað mynd sem hann sendi samdægurs í tölvupósti. Myndinni fylgdi svohljóðandi bréf: „Kveðja, Sævar Bjarnason sem þekkti sögumanninn í Englum alheimsins vel. Blessuð sé minning hans”. Myndin var góð og Sævari voru sendar þakkir og honum heitið mynd af verkinu ef vel tækist til. Næsta dag barst svohljóðandi bréf frá Sævari: „Kærar þakkir, ég tek við þessu fyrir hönd sögumanns sem í sínu lífi hét Pálmi Örn. Við Pálmi unnum saman í Ísbirninum sumar eitt ásamt Bubba nokkrum Morthens og urðum við allir góðir kunningjar. Ári síðar héldum við Pálmi Örn á Klepp, ég er þar ennþá og fæ ennþá útborgað! Bubbi Morthens hélt hins vegar á vit frægðarinnar.” Nú er verkinu lokið og á veggnum í stofu 15 má líta mynd af Kleppi, með Esjuna og Viðey í baksýn. Fyrir utan „höllina” stendur Kleppur - hraðferð, uppi á þaki eru Kiddi og Sæmi, enda voru þeir svo óþekkir. Baldwin Bretakóngur hefur komið sér fyrir í Esjunni o.s.frv. Yfir Kleppi hangir lyfjaský og yfir veröldinni allri er ský veruleikans með ljóði Sigfúsar Daðasonar: „Draumar: Á botni þeirra skynjum við vægðarlausa aðför veruleikans.” Ofar öllu sitja englarnir Rögnvaldur, Páll og Pétur sem hafa snúið baki við þessum heimi og horfa inn í annan, sem okkur er enn hulinn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024