Engir Suðurnesjamenn í stjórn Isavia
Engir Suðurnesjamenn eru í stjórn Isavia en ný stjórn var kynnt á aðalfundi félagsins í gær. Þau Ólafur Þór Ólafsson úr Sandgerði og Helga Sigrún Harðardóttir úr Njarðvík sem sátu í stjórninni síðastliðin tvö ár duttu út úr stjórninni. Fulltrúar í stjórn koma frá pólitískum flokkum landsins en aldrei í sögu Isavia höfðu tveir fulltrúar frá Suðurnesjum verið á sama tíma í stjórn.
Aðalstjórn Isavia ohf. skipa þau Ingimundur Sigurpálsson, Eva Pandora Baldursdóttir, Matthías Páll Imsland, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir og Valdimar Halldórsson. Varastjórn skipa þau Sigrún Traustadóttir, Björg Eva Erlendsdóttir, Hreiðar Eiríksson, Ingveldur Sæmundsdóttir og Reynir Þór Guðmundsson.
Nýr vefur Isavia
Á aðalfundinum var kynntur nýr vefur Isavia sem var formlega opnaður af Birni Óla Haukssyni, forstjóra Isavia. Vefurinn sameinar alla upplýsingagjöf um flugvelli Isavia á einum stað og þar geta farþegar fundið flugupplýsingar innan flugvalla á Íslandi sem og aðrar nauðsynlegar upplýsingar við undirbúning ferðalags innanlands sem erlendis. Þar er einnig að finna öfluga upplýsingaveitu til flugmanna og er nú mun betra aðgengi fyrir þá sem þurfa að nota þjónustu Isavia eða sækja um störf svo dæmi sé tekið. Mikið er lagt upp úr nýjum lausnum fyrir farþega á vefnum enda er það yfirlýst markmið Isavia að vera hluti af góðu ferðalagi. Hægt er að fara inn á www.isavia.is