Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Engir biðlistar á leikskóla í Reykjanesbæ
Þriðjudagur 10. nóvember 2015 kl. 06:00

Engir biðlistar á leikskóla í Reykjanesbæ

- Fjölgun dagforeldra og því ekki biðlistar þar heldur

Hjá leikskólum Reykjanesbæjar eru nú 56 laus pláss. Að sama skapi eru ekki neinir biðlistar eftir dagforeldrum. Málið var rætt á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, velti þeirri spurningu upp hver ástæðan fyrir þessu væri og hvort barnafólki í bænum væri að fækka eða hvort færri börn væru nú í yngstu árgöngunum. Kristinn Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks, sagði alvarlegt að ekki væri hægt að nýta öll þessi leikskólapláss og að breyta þyrfti reglum á þann hátt að hægt yrði að taka yngri börn inn á leikskólann til að fylla lausu plássin.

Í svari Elínar Rósar Bjarnadóttur, formanns fræðsluráðs og bæjarfulltrúa Frjáls afls, kom fram að helsta skýringin væri sú að á Ásbrú er nokkuð um flutninga. „Íbúar þar koma og fara. Þar býr kannski fólk í námi með börn, svo flytur það í burtu og í staðinn kemur fólk sem á ekki börn. Fækkunin á sér aðallega stað þar en ekki niðri í Reykjanesbæ,“ sagði hún.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í máli Elínar Rósar kom jafnframt fram að hún teldi stöðuna ekki áhyggjuefni og að því bæri að fagna að ekki væru biðlistar eftir plássi á leikskólum og hjá dagforeldrum. „Við erum greinilega að þjónusta barnafólk vel og þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu. Þó að við vildum vissulega hafa stöðugleika í þessu en hverfið Ásbrú er ekki enn fastmótað.“ Dagforeldrum í Reykjanesbæ hefur fjölgað og skýrir það hvers vegna ekki eru biðlistar eftir plássi hjá þeim.