Enginn starfsmaður velferðarsviðs smitast
Af um 150 starfsmönnum velferðarsviðs Reykjanesbæjar hefur enn enginn starfsmaður smitast af COVID-19 og hafa aðeins fáir starfsmenn þurft að fara í sóttkví.
„Skiptir hér miklu að starfsmenn velferðarsviðs fylgja vel tilmælum sóttvarnarlæknis og Almannavarna bæði í starfi og utan þess. Ekki hefur enn þurft að kalla eftir starfsmönnum úr bakvarðarsveit velferðarþjónustu en næstu vikur munu reyna á úthald, styrk og þrautseigju starfsmanna og stjórnenda og gott að vita til þess að til er gott bakland á þessum erfiðu tímum,“ segir í fundargerð velferðarráðs Reykjanesbæjar frá því fyrr í mánuðinum.
Velferðarráð Reykjanesbæjar færir öllu starfsfólki í velferðarþjónustu sveitarfélagsins kærar þakkir fyrir viðbrögð þeirra í kjölfar þess að neyðarstigi almannavarna var lýst yfir á landinu vegna COVID-19.
Samkomubann og aðrar takmarkanir hafa þýtt röskun á hefðbundnu starfi sem starfsfólk hefur fundið lausnir á og unnið út frá þeim tilmælum sem gefin hafa verið af mikilli fagmennsku.
Velferðarráð færir notendum þjónustunnar, aðstandendum þeirra og starfsfólki hlýjar kveðjur og hvatningu í þeim verkefnum sem framundan eru, segir í gögnum ráðsins.