Enginn ráðherra úr Suðurkjördæmi
- Vonbrigði, segir Ásmundur Friðriksson
Enginn ráðherra úr Suðurkjördæmi er í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem kynnt var í gær. Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðismanna í kjördæminu, greinir frá því á Facebook-síðu sinni að hann sé ekki sáttur við ráðherraskipan Sjálfstæðisflokks en sex ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma úr flokknum. Sagði hann ástæðuna í fyrsta lagi þá að skipanin gangi í veigamiklum atriðum gegn því lýðræðislega umboði sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áunnið sér í prófkjörum og síðan í kosningum í haust. Í öðru lagi fæli hún í sér lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann sinn stærsta sigur í kosningunum. Hann bætir við að þessi skoðun hans hafi ekkert að gera með þá einstaklinga sem völdust til ráðherraembætta. Þau væru hið vænsta fólk sem hann óskar hjartanlega til hamingju.
Ásmundur Friðriksson, Suðurnesjamaður og annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins, kveðst vonsvikinn yfir því að enginn úr ráðherrahóp Sjálfstæðismanna komi úr Suðurkjördæmi. „Ég sagði formanni flokksins mína skoðun og að ég vildi fá ráðherra úr okkar kjördæmi,“ segir hann. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, verður forseti Alþingis og kveðst Ásmundur samgleðjast henni. Hann gerir sér vonir um að þingmenn Suðurkjördæmis verði formenn í þýðingarmiklum nefndum.