Enginn neyðarfundur hjá Reykjanesbæ
Ekkert nýtt í stöðunni að sögn bæjarstjóra
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir að ekki hafi verið boðað til neyðarfundar vegna fjárhagsstöðu bæjarins í gær. DV greinir í dag frá því að staða Reykjanesbæjar sé vonlaus, þar sem heildarskuldir bæjarins séu um 40 milljarðar kr. Kjartan segir að búið sé að halda fjölda funda að undanförnu með ýmsum aðilum varðandi stöðuna. Nú sé hins vegar komið að því að kynna skýrslu KPMG um fjárhagsstöðu bæjarsins og vinna í lausnum.
„Það er ekkert nýtt í stöðunni, við þekkjum hana. Nú er KPMG að leggja fram skýrslu sem svarar vonandi spurningum varðandi framhaldið. Þeir eru að leggja fram sínar hugmyndir um lausnir á vandanum. Við erum svo að kynna þær fyrir okkar stjórnendum, en þetta eru fyrst og fremst tillögur og hugmyndir,“ segir Kjartan. Skýrslan verður kynnt þann 29. október og þá mun verða ljóst hvaða leiðir verða farnar til þess að laga fjárhagsvandræði Reykjanesbæjar. „Það er ljóst að staðan er flókin og þetta verður ekki auðvelt, en þetta er gerlegt. Við sjáum fram á að við getum snúið þessu við á nokkrum árum,“ bætir Kjartan við en samkvæmt lögum hefur Reykjanesbær frest til ársins 2021 til þess að greiða úr fjárhagsvandanum. „Við erum ekki að henda inn handklæðinu,“ segir Kjartan að lokum.