Enginn eldur og haldið inn fyrir Garðskaga
Í dag hefur áhöfn varðskipsins Þórs og slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins kannað aðstæður um borð í flutningaskipinu Fernöndu þar sem skipin voru stödd skammt undan landi við Hafnir og virðist enginn eldur eða reykur vera lengur til staðar. Skipið er að kólna og mældist hiti í skipinu hvergi hærri en 40 gráður með hitamyndavél slökkviliðsins.
Ákveðið hefur verið að varðskipið Þór haldi með Fernöndu inn fyrir Garðskaga og leiti vars fyrir ríkjandi vindum.
Verður staðan síðan að nýju metin í fyrramálið í samráði við Umhverfisstofnun, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Hafrannsóknarstofnun, Samgöngustofu, hafnaryfirvöld Faxaflóahafna og Hafnarfjarðarhafnar, lögreglu, eigenda skipsins og tryggingafélag.