Enginn byggðakvóti til Sandgerðis
Engum byggðakvóta var úthlutað til Sandgerðisbæjar fyrir fiskveiðiárið 2013/2014. Þetta er niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins en hún hefur verið kynnt fyrir bæjaryfirvöldum í Sandgerði.
Málið var tekið fyrir á 19. fundi atvinnu- og hafnarráðs Sandgerðisbæjar 29. október sl. og eftirfarandi bókað:
„Sandgerðisbær fékk synjun á umsókn um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2013/2014. Atvinnu- og hafnarráð furðar sig á þeim útreikningum sem eru viðhafðir við úthlutun byggðakvóta. Ráðið telur tímabært að forsendur verði endurskoðaðar og hvetur sjávarútvegsráðherra til að beita sér fyrir því að það verði gert“.
Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar tekur einhuga undir bókun atvinnu- og hafnarráðs og ítrekar hvatningu til sjávarútvegsráðherra um að beita sér fyrir endurskoðun á forsendum fyrir útreikningi byggðakvóta.