Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 23. júlí 2007 kl. 14:55

"Engin vandamál en nóg af úrlausnarefnum."

Runólfur Ágústsson framkvæmdastjóri háskólasamfélagsins Keilis segir undirbúning fyrir haustið ganga ljómandi vel. Búið er að ráða í allar kennarastöður og fjölmargir sóttu um námið á þessari fyrstu önn skólans.
"Frumgreinadeildin hefur fengið fljúgandi start, við fengum þar um 170 umsóknir og erum að taka þar inn okkar síðustu nemendur núna. 
Stefnan er að taka inn 100 nemendur á fyrstu önninni og við veljum gott fólk úr þessum stóra hópi. Ásóknin fór fram úr okkar björtustu vonum og þar af er mjög stór hópur Suðurnesjamanna sem er mjög ánægjulegt."
Meðalaldur nemendanna er rúmlega 30 ár. "Þetta er fólk með reynslu úr atvinnulífinu sem sýnir það að mat okkar að það væri markaður fyrir svona nám hér á svæðinu hefur verið hárrétt," segir Runólfur. 
Kennararnir eru sjö talsins á haustönninni og þeim mun fjölga mikið fyrir vorönnina.
Einnig er unnið að krafti að stofnun flugakademíunnar en Hjálmar Árnason er í broddi fylkingar í því starfi. Stefnt er að því að nám hefjist í þeirri deild um áramót. Allar íbúðirnar sem samfélagið hefur til ráðstöfunar hafa verið leigðar út og verið er að skrifa undir leigusamninga þessa dagana. Á einni viku í ágúst mun þetta nýja samfélag spretta upp sem er á við meðalstórt bæjarfélag á landsbyggðinni.
Runólfur segjist finna mikinn meðbyr með þessu verkefni hér á svæðinu og þykir það mjög ánægjulegt. "Reykjanesbær hefur komið mjög sterkt inní þessa vinnu og það hefur verið mjög gaman að vinna með starfsfólki bæjarins sem hefur lagt mikið á sig til að þetta verði að veruleika. Tugir iðnaðarmanna eru nú á svæðinu svo allt verði tilbúið þegar fólkið flytur inn í ágúst. Allir leggjast á eitt, þróunarfélagið, verktakar á vegum þess, starfsfólk bæjarins sem og starfsfólk Keilis. Þetta er vertíðarstemmning og mjög skemmtileg sem slík," segir Runólfur og segir ekkert því til fyrirstöðu að allt verði tilbúið í tæka tíð.
Það má segja að hlutirnir hafi gengið eins og í sögu og er það góður grunnur fyrir því að starf skólans verði farsælt. "Það hafa engin vandamál komið upp, en nóg af úrlausnarefnum!" segir Runólfur.

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024