Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Engin skólasameining fyrirhuguð í Reykjanesbæ
Sunnudagur 13. mars 2011 kl. 13:42

Engin skólasameining fyrirhuguð í Reykjanesbæ

„Þessi meirihluti hefur engar fyrirætlanir um að lækka kostnað með því að sameina grunnskóla eða leikskóla í Reykjanesbæ“, segir Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Hann segir töluvert spurt um þetta í tengslum við fréttir af niðurskurði og sameiningu leik- og grunnskóla í Reykjavík. Í Reykjanesbæ eru 6 grunnskólar og 10 leikskólar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„Starf leikskóla og grunnskóla er unnið af stjórnendum og starfsfólki með miklum sóma og hagkvæmni, og síst þörf á að raska því starfi á þessum erfiðu tímum með umróti sem litlu skilar nema mögulega nokkrum stjórnunarstöðum en örugglega verri umsjón með mikilvægum verkefnum í þágu barna og ungmenna“ segir Árni.


„Við erum að sjá árangur af starfi okkar eftir margra ára vinnu og viljum vernda þann árangur. Við sjáum nú færri börn á unglingastigi reykja eða nota áfengi en jafnaldrar þeirra á landsvísu. Við finnum fyrir því að börnin hafa styrkari sjálfsmynd og eru ánægð í leikskóla og grunnskóla. Megin markmið okkar er og hefur verið að sérhver einstaklingur öðlist hamingju, skynji framtíð sína bjarta og geti lifað heilbrigðu lífi. Þetta er mikilvægasta undirstaðan,“ segir Árni


Árni segir að margvísleg verkefni á svokallaðri „líflínu“, sem spanni forvarnarverkefni í Reykjanesbæ frá vöggu til 18 ára aldurs, hafi stuðlað að þessu. Hann nefnir kynningar fyrir alla foreldra sem vilja þiggja heimgreiðslur eftir fæðingarorlof og námskeið fyrir verðandi foreldra. Hann nefnir ókeypis SOS námskeið fyrir foreldra 2ja ára barna um skilvirkar uppeldisaðferðir. Hann nefnir einnig gott samstarf við dagforeldra, enga biðlista á leikskóla, stuðning við stöðu starfsmanns hjá foreldrafélögunum, hvatningu til fyrirtækja fyrir fjölskyldustefnu, góðan aðbúnað til íþrótta barna, áherslu á tónlistarkennslu frá unga aldri og metnaðarfullt skólastarf bæði í leikskóla og grunnskóla. Þá hefur útivistartími verið samræmdur og áhersla lögð á samstarf milli foreldra , skóla og íþróttasamfélagsins.


„Allt er þetta að skila árangri sem við ætlum ekki að fórna,“ segir Árni. „En auðvitað er fast haldið utan um kostnað og niðurskurður og aðhald er umtalsvert á þessum erfiðu tímum. Við lögðum þó áherslu á að draga mest saman í stjórnsýslunni hjá bænum og almennum rekstri og það hefur skilað okkur góðum sparnaði“.