Engar umbætur á tveimur hættulegustu gatnamótunum
Þrátt fyrir ábendingar um að gatnamótin við Fitjar í Njarðvík séu ein hættulegustu gatnamótin í Reykjanesbæ er ekkert að finna í nýrri samgönguáætlun um úrbætur. Gatnamótin við Stekk verða því áfram ein hættulegustu gatnamót bæjarins eins og Grænásgatnamótin. Fjöldi slysa hefur orðið á þessum tveimur gatnamótum og aðkoman að þeim oft ljót.
Þetta kemur fram í athugasemdum bæjarráðs Reykjanesbæjar frá í gær þegar fjallað var um þingályktun um fjögurra ára samgönguáætlun. Bæjarrað bendir á að með einföldum hætti hefði verið hægt að „útrýma þessum svarta bletti,“ eins og það er orðað. Samt sem áður hafi ekki verið tekið tillit til þess í samgönguáætluninni.
Í athugasemdum bæjarráðs er einnig krafist aðgerða vegna Grænásgatnamótanna „Reykjanesbær hóf baráttu fyrir öruggum gatnamótum Reykjanesbrautar/Grænásbrautar árið 2007 þegar fyrrum varnarsvæði var tekið yfir við brotthvarf Varnarliðsins. Samkvæmt samgönguáætlun frestast enn að tryggja öryggi vegfaranda bæði gangandi og akandi, en um 1700 manns búa nú á svæðinu, þar af hátt hlutfall barna, sem þurfa að sækja þjónustu yfir Reykjanesbraut. Óviðunandi er að gangandi og hjólandi vegfarendur innan Reykjanesbæjar þurfi að fara yfir eina fjölförnustu hraðbraut landsins á leið sinni milli íbúðahverfa.
Gert er ráð fyrir aðeins 65 millj. framlagi til verkefnisins á Samgönguáætlun á árinu 2010 og 80 millj. árið 2011. Þetta framlag mun alls ekki duga til nauðsynlegra framkvæmda á svæðinu auk þess sem enn er dregið að framkvæma. Reykjanesbær krefst aðgerða strax,“ segir í athugasemdum bæjarráðs-
----
VFmynd/elg - Frá vettvangi slyss á gatnamótum Stekks og Reykjanesbrautar á Fitjum. Þar hafa orðið mörg slys.