Engar lokanir eða uppsagnir á HSS
„Engar áætlanir eru uppi um að leggja niður deildir á stofnuninni eða segja upp starfsfólki,“ segir í tilkynningu frá framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofunar Suðurnesja. Tilkynningin er birt á vef stofnunarinnar að gefnu tilefni.
„Það er þó ekkert launungarmál að HSS stefnir í hallarekstur á árinu, sem rekja má til þess að fjárveitingar til stofnunarinnar hafa ekki tekið mið af þjónustuþörf á Suðurnesjum og verulegri íbúafjölgun á svæðinu undanfarin ár,“ segir jafnframt.
Framkvæmdastjórn og starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja leitar nú leiða til að mæta hallarekstrinum en sem fyrr segir eru engar uppsagnir fyrirhugaðar í því sambandi.