Engar golfkúlur eða hunda, takk
Mikið hefur borið á því í sumar að starfsmenn á Sandgerðisvelli hafi fundið golfkúlur á aðalkeppnisvelli Reynis. Þá hefur borið á því að fólk komi þangað með hunda sína.
Á heimasíðu félagsins er bæjarbúum bent á að stranglega bannað er að leika golf og viðra hunda á knattspyrnuvellinum. „Þetta er knattspyrnuvöllur en ekki útivistarsvæði fyrir hunda og golfara. Starfsmenn Sandgerðisvallar eru að reyna sitt besta til að halda vellinum sem bestum og því afar hvimleitt að sjá völlinn eyðilagðan með þessu móti,“ segir þar jafnframt.
Mynd - Golf er leikið á þar til gerðum golfvöllum og knattspyrna á knattspyrnuvöllum. Ekki öfugt.