Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Engar ákvarðanir teknar varðandi herstöðina á Miðnesheiði
Sunnudagur 3. júlí 2005 kl. 12:14

Engar ákvarðanir teknar varðandi herstöðina á Miðnesheiði

James I. Gadsden, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, segir að í viðræðulotunni um varnarmál sem hefjast í næstu viku verði einkum rætt um skiptingu rekstrarkostnaðar flugvallarins, en Bandaríkjamenn vilja að Íslendingar greiði meira til hans. Kemur þetta fram í viðtali Fréttablaðsins.

Á mánudaginn hefjast undirbúningsviðræður ríkisstjórna Bandaríkjanna og Íslands um málefni herstöðvarinnar, aðal efni viðræðnanna verður um aukna þátttöku Íslendinga.

„Á sínum tíma var notkun flugvallarins að mestu hernaðarleg en í fyllingu tímans hefur það hlutverk óðum vikið fyrir borgaralegum notum af honum. Ríkisstjórn Íslendinga hefur tekið undir þau sjónarmið að því sé sanngjarnt að Íslendingar borgi stærri hluta af rekstrarkostnaði Keflavíkurflugvallar. Þetta verða hins vegar einungis undirbúningsviðræður, ekki búast við því að þær muni leiða til lausnar á öllum þeim málum sem þarf að leysa. Þetta er upphaf á ferli sem mun að líkindum taka talsverðan tíma. Tíminn er hins vegar aukaatriði, aðalatriðið er að gera þetta á markvissan hátt svo við náum niðurstöðu sem ríkisstjórnir beggja landa sætta sig við,“ sagði Gadsden.

Gadsden ítrekar að ekki megi rugla saman samningaviðræðum um kostnaðarskiptingu og stóru spurningunni um framtíðarhlutverk herstöðvarinnar. Sú spurning er ekki til umræðu nú. Engar ákvarðanir hafa verið teknar.

Þá sagði Gadsden að allir möguleikar væru opnir varðandi hlutverk herstöðvarinnar í framtíðinni. „Á milli Íslendinga og Bandaríkjanna er í gildi tvíhliða samningur og samkvæmt honum skuldbindur Bandaríkjastjórn sig til að tryggja varnir Íslands. Við höfum engin áform að draga okkur út úr því. Í ljósi síbreytilegra kringumstæðna í heiminum verðum við stöðugt að endurmeta með hvaða hætti við getum staðið við skuldbindingar okkar á sem áhrifamestan hátt. Ef við á hinn bóginn teldum herstöðina á Keflavíkurflugvelli ekki mikilvæga þá myndum við einfaldlega loka henni.“

Aðspurður um orustuþoturnar og hversu litlu munaði að þær yrðu kallaðar heim fyrir tveimur árum sagði Gadsden það ekki endilega benda til þess að ríkisstjórn Bush telji hernaðarlegt gildi stöðvarinnar vera hverfandi. Það væri nauðsynlegt að hafa samhengi tímans í huga og megi alls ekki skoða í samhengi varnarviðræðna Íslendinga og Bandaríkjamanna. Nauðsynlegt er að skoða þær ógnir sem steðjuðu að heiminum á þeim tíma og úrræðin sem stóðu til boða.

Gadsden sagði að á þessu augnabliki hefði engin ákvörðun verið tekin um herstöðina og þess vegna væri ekki búið að ákvarða framtíðarfyrirkomulag herstöðvarinnar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024