Endurteknar bilanir í búnaði valdið miklu tjóni
Stjórn United Silicon vinnur nú hörðum höndum að endurskipulagningu rekstrar félagsins í samvinnu við kröfuhafa þess. Fjárhagserfiðleikar félagsins eru fyrst og fremst afleiðing rekstrarerfiðleika í verksmiðju United Silicon sem rekja má til endurtekinna bilana í búnaði og valdið hafa félaginu miklu tjóni.
Héraðsdómur Reykjaness veitti í gær United Silicon framlengingu á heimild til greiðslustöðvun til þriggja mánaða, eða til 4. desember. Helgi Jóhannesson hrl. hefur verið ráðinn aðstoðarmaður í greiðslustöðvun og hefur Héraðsdómur Reykjaness staðfest þá ráðningu. Framlengingunni er ætlað að gera fyrirtækinu kleift að endurskipuleggja rekstur félagsins og hrinda í framkvæmd endurbótaáætlun, sem byggð er á ráðleggingum utanaðkomandi sérfræðinga, með það að markmiði að gera fyrirtækið fjárhaglega og tæknilega rekstrarhæft til lengri tíma litið.
Á greiðslustöðvunartíma verður því líka unnið að frekari greiningum á tæknilegum úrlausnarefnum, áætlunum um úrbætur og nauðsynlegum endurbótum.
Í tilkynningu frá United Silicon sem send var til fjölmiðla nú undir kvöld segir að heimsmarkaðsverð á kísilmálmi fari hækkandi og spurn eftir kísilmálmi eykst. „Framtíðarhorfur rekstrarins eru því góðar, að því tilskyldu að takist að endurskipuleggja reksturinn og fjármagna nauðsynlegar endurbætur,“ segir í tilkynningunni.