Endurreisa þarf sjálfsvirðingu og trú
Nýr meirihluti Sveitarfélagsins Garðs segir að endurreisa þurfi sjálfsvirðingu og trú í bænum. Einnig þurfi að skapa frið og traust í sveitarfélaginu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem nýr meirihluti, þau Jónína Holm, Pálmi S. Guðmundsson, Kolfinna S. Magnúsdóttir og Davíð Ásgeirsson sendu frá sér í dag.
„Samstarf nýs meirihluta mun byggja á virðingu, sátt og samvinnu. Lýðræðislega mun verða unnið úr öllum málum og faglega staðið að verkefnum. Með myndun nýs meirihluta er sýnd sú pólitíska ábyrgð sem kjörnir bæjarfulltrúar eru kosnir til með hag sveitarfélagsins að leiðarljósi,“ segir í yfirlýsingunni. Þar segir einnig að nýr meirihluti vilji að breið sátt muni ríkja og pólitísk samstaða um þær úrbætur sem gera þurfi.