Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Endurnýja ekki starfsleyfi fyrir fiskþurrkun í Garðinum
Föstudagur 13. júlí 2018 kl. 05:00

Endurnýja ekki starfsleyfi fyrir fiskþurrkun í Garðinum

Heilbrigðisnefnd Suðurnesja telur forsendur brostnar fyrir áframhaldandi heitloftsþurrkun fiskafurða í verksmiðju Nesfisks ehf. að Iðngörðum 10a í Garði og hafnaði á síðasta fundi sínum umsókn fyrirtækisins um endurnýjun starfsleyfis.
 
Nefndin samþykkti svohljóðandi bókun vegna umsóknar Nesfisks: 
 
„Heilbrigðisnefnd Suðurnesja hefur borist umsókn frá Nesfiski ehf., dags. 27. apríl 2018, um endurnýjun starfsleyfis fyrir heitloftsþurrkun að Iðngörðum 10a, Sveitarfélaginu Garði. Í greinargerð með umsókninni sem barst nefndinni þann 14. maí sl. kemur fram að sótt sé um starfsleyfi til eins árs þar sem ný verksmiðja á Reykjanesi, sem taka á við þeirri þurrkun sem nú fer fram að Iðngörðum 10a, verði ekki tilbúin fyrr en um mitt ár 2019. Nefndin framlengdi starfsleyfi fyrirtækisins til fjögurra ára þann 6. maí 2013. Af því tilefni var eftirfarandi bókun samþykkt: „Nefndin ítrekar að hún telur að heitloftsþurrkun fiskafurða eigi ekki að vera nálægt íbúabyggð og hvetur fyrirtækið til að íhuga aðra staðsetningu t.d. á Reykjanesi“. Á fundi sínum þann 11. maí 2017 framlengdi nefndin aftur starfsleyfið til loka maí 2018 þar sem fyrirtækið hefði fundið starfseminni stað á Reykjanesi. Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hafa ítrekað staðfest lyktarmengun frá verksmiðjunni, m.a. í nærliggjandi íbúðahverfi, auk þess sem fjöldamargar kvartanir þess efnis hafi borist frá íbúum í nálægum íbúðarhúsum. Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er heilbrigðisnefndum ætlað að standa vörð um heilnæm lífsskilyrði landsmanna og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu ómenguðu umhverfi. Að þessu virtu telur heilbrigðisnefnd Suðurnesja forsendur brostnar fyrir áframhaldandi heitloftsþurrkun í verksmiðju Nesfisks ehf. að Iðngörðum 10a og hafnar umsókn um endurnýjun starfsleyfis.“
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024