Endurlífgun bar ekki árangur
Karlmaður á fertugsaldri lést á sunnudaginn eftir að hann féll í sjóinn við affallið frá Reykjanesvirkjun. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar fann manninn í sjónum úti fyrir Reykjanesi en allar björgunarsveitir á Suðurnesjum voru kallaðar út um kl. 10 á sunnudagsmorgun þegar tilkynnt var um að maður hafi hrasað og fallið í sjóinn við affall Reykjanesvirkunar og rekið á haf út.
Viðbragðsaðilar frá lögreglu, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu og þyrla Landhelgisgæslunnar fóru þegar á vettvang. Fjórir einstaklingar voru þar við sjósund þegar slysið varð. Maðurinn fannst meðvitundarlaus í sjónum og endurlífgun bar ekki árangur.
Lögreglan á Suðurnesjum ítrekar í tilkynningu til fjölmiðla að sjóböð á fyrrnefndum stað eru stranglega bönnuð.