Endurhannar innviði Samkomuhússins í Garði
Sveitarfélagið Garður hefur samþykkt að taka tilboði Ólavíu Ólafsdóttur arkitekts í innanhússhönnun á Samkomuhúsinu í Garði.
Í tilboðinu eru gerðar tillögur um efnis- og litaval, lagfæringar, breytingar og kostnaðaráætlun þannig að endurbætur hússins geta verið áfangaskiptar en unnið út frá sömu forsendum og skipulagi.
Stefnt er að því að halda íbúafund í Garði miðvikudaginn 16. desember. Þar gefist íbúum kostur á að segja álit sitt á hlutverki Samkomuhússins og mun verða tekið tillit til athugasemda sem þar kunna að koma fram við endurbætur á Samkomuhúsinu.
Mynd: Ólavía Ólafsdóttir arkitekt mun vinna innanhúshönnun fyrir Sveitarfélagið Garð.