Endurbótum á Hólmsteini lokið
Hægt er að hefja útgerð á Hólmsteini GK 20 eftir gagngerar endurbætur sem staðið hafa yfir á bátnum í allt sumar. Ekki verður þó gert út til sjós, enda stendur báturinn á þurru, heldur stendur til að róa á mið menningar og ferðamennsku.
Fjórir menn hafa unnið að framkvæmdunum í sumar. Opnað var á milli lúkars, lestar og vélasalarins, þannig að nú er komið vistlegt rými sem getur tekið 30 manns í sæti. Að sögn Ásgeirs Hjálmarssonar, safnvarðar á byggðasafninu, er hægt að nýta rýmið til að taka á móti ferðamannahópum. Einnig væri hægt að hafa þar ýmsar menningaruppákomur eins og sagnakvöld og fleira í þeim dúr.
Sveitarfélagið Garður eignaðist bátinn að gjöf fyrir tveimur árum en hann var gerður út frá Garði í áratugi þangað sem hann kom frá Hafnarfirði árið 1958.
Báturinn varð fyrir skakkaföllum áður en hann komst í skjól á Garðskaga en fyrir um ári síðan sökk hann í Sandgerðishöfn eftir að siglt var á hann. Óhætt er að segja að endurbæturnar hafa tekist vel.
VFmyndir/elg.